1.8.2016 17:30

Mánudagur 01. 08. 16

Herra Guðni Th. Jóhannesson (48 ára) var settur inn í embætti sem sjötti forseti lýðveldisins við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu í dag – fjölmenni var í sumarblíðu á Austurvelli og fagnaði nýja forsetanum og konu hans Elizu Reid  á svölum þinghússins. Fylgja þeim árnaðaróskir um farsæld í hinu háa embætti.

Í aðdraganda athafnarinnar endurtók Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttakona hvað eftir annað í beinni útsendingu sjónvarpsins að dregið hefði verið úr kröfum um hátíðarklæðnað við athöfnina – það er karlar væru ekki lengur í kjólfötum né konur í síðum kjólum auk þess sem gestum væri ekki skylt að bera heiðursmerki. Af því hve þetta var oft endurtekið í útsendingunni og hefur verið áréttað oft í ríkisútvarpinu má ætla að um stórviðburð sé að ræða. Nýi forsetinn ákvað þetta að sögn til að vera í takt við tíðarandann.

Forsetahjónin voru í hátiðarklæðnaði, hann í kjólfötum með heiðursmerki og hún í skautbúningi. Báru þau sig vel.

Að athygli sé beint að klæðnaði gesta frekar en inntaki athafnarinnar sjálfrar er ef til vill í takt við tíðarandann. Frásögn ríkisútvarpsins var öll um hina ytri umgjörð, dagskrána sjálfa, en ekkert gert til að rýna í ræðu biskups Íslands í helgistund í Dómkirkjunni eða ræðuna sem Guðni Th. flutti við athöfnina í þinghúsinu.

Ræðuna má lesa hér á vefsíðunni www.forseti.is 

Hann sagðist taka við embættinu „með auðmýkt í hjarta, veit að ég á margt ólært, veit að mér getur orðið á“.  Hann teldi að forseti ætti „að öllu jöfnu að standa utan sviðs stjórnmálanna, óháður flokkum eða fylkingum“. Í embættinu mundi hann „samt vekja máls á því sem mér býr í brjósti, benda á það sem vel er gert og það sem betur mætti fara“.

Hann vék að samfélagsmálum, náttúru landsins, tungunni, sögunni og fjölbreytileika nútímasamfélags á Íslandi:

„Við játum ólík trúarbrögð, stöndum sum utan trúfélaga, við erum ólík á hörund, við getum heitið erlendum eiginnöfnum, þúsundir íbúa þessa lands eiga sér erlendan uppruna og tala litla eða enga íslensku en láta samt gott af sér leiða hér. Við lifum tíma fjölbreytni og megi þeir halda áfram þannig að hver og einn geti rækt sín sérkenni, látið eigin drauma rætast en fundið skjól og styrk í samfélagi manna og réttarríki hér á landi.“

Það verði þó að vega þyngra sem sameinar en sundrar og þar hefði þjóðhöfðinginn hlutverki að gegna.