Laugardagur 27. 08. 16
Í gærkvöldi var ljósakvöld í garði gamla bæjarins í Múlakoti í Fljótshlíð. Heppnaðist það mjög vel og sóttu um 100 manns samkomuna. Kom í minn hlut að setja hana og hér má lesa ávarp mitt.
Að ráðast í endurgerð húsa og garðs eins og gert hefur verið í Múlakoti er ekkert áhlaupaverk heldur kostar bæði þolinmæði og mikið fé. Úrtölumenn verða á vegi þeirra sem valið hafa leið endurreisnarinnar en takist hún verða þó allir fljótt sáttir að verki loknu og fagna að í það skuli hafa verið ráðist.
Fyrir réttum 20 árum 18. ágúst 1996 átti ég þátt í að opna garðinn Skrúð við Núp í Dýrafirði eins og sjá má hér.
Séra Sigtryggur Guðlaugsson stofnandi Skrúðs, prófastur á Núpi réðst í það stórvirki 7. ágúst 1909 að stofna með formlegu hætti matjurta- og skrautgarð. Valdi hann daginn þegar rétt 150 ár voru liðin frá því að Björn Halldórsson í Sauðlauksdal setti niður kartöflur hér á landi, fyrstur manna.
Garðurinn Skrúður hlaut í maí 2013 alþjóðleg verðlaun „Premio Internazionale Carlo Scarpa per il Giardino“ eða „Alþjóðaverðlaun Carlo Scarpa fyrir garða“.
Verðlaunin eru nefnd í höfuðið á Carlo Scarpa, einum frægasta arkitekt Ítala á síðastliðinni öld og hefur samnefnd menningar- og rannsóknastofnun veg og vanda af vali þeirra staða sem verðlaunaðir eru hverju sinni.
Í tilkynningu dómnefndar segir meðal annars að þau sé veitt „ þessum litla jurtagarði sem er hannaður eftir reglum rúmfræðinnar og staðsettur í mikilfenglegu landslagi Vestfjarða, og komið á fót í nágrenni unglingaskólans á Núpi á árunum 1907-1909“.
Sagan um hvernig hróður Skrúðs við Núp hefur borist um víða veröld með þessari miklu viðurkenningu er áminning um hve varðveisla og virðing fyrir því sem gert af hugsjón og stórhug skiptir miklu.
Hver sem kynnir sér sögu garðsins sem Guðbjörg Þorleifsdóttir, húsfreyja í Múlakoti, gerði 1897 sér að yfir honum svífur meira en það sem við kennum almennt við garðrækt. Þess vegna kallaði ég garðinn í Múlakoti „lifandi þjóðargersemi“ í orðum mínum við upphaf samkomunnar í gær.
Það er fagnaðarefni að markvisst er unnið að endurreisn garðsins í Múlakoti samhliða endurgerð gamla bæjarins þar. Hróður þess framtaks á ekki síður eftir að berast víða en endurreisn Skrúðs á sínum tíma.