18.8.1996

Ávarp í Skrúði á Núpi

Ávarp í Skrúði á Núpi
18. ágúst 1996 - ávarp.

Við komum hér saman í dag til að minnast einstaks framtaks, sem byggðist á þeirri hugsjón að reyna að sýna eftir mætti, hvað gróið gæti úr mold á Íslandi til fæðu, fjölnytja og fegurðar.

Séra Sigtryggur Guðlaugsson stofnandi Skrúðs, prófastur hér á Núpi lét sér ekki nægja að boða söfnuði sínum orð Guðs og sá með þeim hætti góðum fræjum heldur réðst hann í það stórvirki fyrir 90 árum að rækta þennan matjurta- og skrautgarð.

Tilgangur prófastsins var ekki aðeins að þjóna eigin ræktunar- og sköpunarþrá heldur einnig að kenna öðrum að njóta náttúrunnar og sýna fram á, að íslenskur jarðvegur, jafnvel grýttur, gæti fóstrað jurtir og komið þeim til þroska. Þá vildi sr. Sigtryggur einnig venja ungt fólk við að neyta garðjurta og viðurkenna ágæti þeirra til fæðubóta og heilbrigði. Sýndi hann þar sem endranær lofsverða framsýni. Loks vildi stofnandi garðsins ástunda ræktarsemi með honum, því að hinn formlegi stofndagur var 7. ágúst 1909, þegar rétt 150 ár voru liðin frá því að Björn Halldórsson í Sauðlauksdal setti niður kartöflur hér á landi, fyrstur manna.

Mörg stórmenni hafa búið hér á Núpi frá landnámstíð. Á þessari öld er staðurinn þó þekktastur fyrir það mannræktarstarf, sem þeir bræður séra Sigtryggur og Kristinn Guðlaugssynir hófu hér með starfrækslu einskonar lýðskóla árið 1907. Í huga séra Sigtryggs var mannrækt og garðrækt samofin, eins og áður er lýst, því að hann bar hag nemenda sinna mjög fyrir brjósti við stofnun Skrúðs.

Skólahald í héraðsskólanum var hér með ýmsum hætti allt til ársins 1992, þegar menntamálaráðuneytið ákvað að fella það niður vegna dræmrar aðsóknar, en aðeins fimmtán nemendur sóttu þá um haustið um vist í grunnskóladeildum og framhaldsskóla.

Einmitt þetta sama ár, 1992, var stofnuð framkvæmdanefnd, sem skyldi leita leiða til að endurreisa garðinn sem hafði verið umhirðulaus um nokkurt skeið. Að því góða starfi hafa margir komið síðan og í dag fögnum við enn þáttaskilum í sögu ræktunarstarfs á Núpi, þegar endurlífgun Skrúðs lýkur formlega. Skal öllum þakkað, sem þar hafa látið að sér kveða.

Í mars 1959 afhenti sr. Sigtryggur Héraðsskólanum á Núpi Skrúð til eignar og varðveislu. Í september 1993 afsöluðu landeigendur jarðarinnar Núps héraðsskólanum landspildu þeirri, þar sem garðurinn stendur, með þeim gróðri og mannvirkjum, sem henni tilheyra úr eignarjörðinni Núpi. Rituðu þau Valdimar Kristinsson, Margrét R. Hauksdóttir og Vilborg Guðmundsdóttir undir þetta höfðinglega gjafaafsal. Samkvæmt þessu hefur garðurinn verið í eigu og vörslu menntamálaráðuneytisins undanfarin ár.

Síðastliðinn þriðjudag, 13. ágúst, samþykkti ríkisstjórnin þá tillögu mína, að Skrúður yrði best kominn í höndum hins nýja Ísafjarðarbæjar. Vænti ég þess, að áður en langt um líður verði unnt að ganga frá öllum forms- og efnisatriðum til staðfestingar á þeirri samþykkt.

Skömmu eftir að hafist var handa við endurreisn garðsins var framtaksins getið í Vestfirska fréttablaðinu og lýkur þeirri frásögn með þeim orðum, að ekki sé ótrúlegt, að í framtíðinni verði Skrúður einn helsti viðkomustaður ferðafólks um þessar slóðir vegna fegurðar og sérstæðrar sögu.

Þegar þessi orð eru rifjuð upp skulum við minnast þess, að Skrúður er ekki aðeins stórmerkilegur á íslenskan mælikvarða heldur einnig evrópskan, því að hönnun hans minnir á garða í Evrópu fyrir þrjú til fjögur hundruð árum.

Í dag minnumst við hinna merku hjóna séra Sigtryggs Guðlaugssonar og frú Hjaltlínu M. Guðjónsdóttur og þess mikla ræktunarstarfs, sem þau unnu hér á þessum stað. Við þökkum einnig framkvæmdanefninni og öllum, sem unnið hafa að varðveislu og endurreisn Skrúðs.

Ég lýk máli mínu með því að óska íbúum Ísafjarðarbæjar til hamingju með að eiga þennan merka garð innan landamerkja sinna og láta í ljós þá ósk, að sem flestir leggi hingað leið sína til að kynnast garðinum, enda verði hann jafnan höfundi sínum og umhirðumönnum til sóma.