26.8.2016

Ljósakvöld í Múlakoti

Múlakot í Fljótshlíð 26. ágúst 2016 klukkan 20.00

 

Ég býð ykkur velkomin hingað í kvöld í nafni vinafélags gamla bæjarins í Múlakoti. Að gera það kemur í minn hlut í fjarveru Helga Jóhannessonar lögmanns, formanns félagsins, og flyt ég kveðju hans.

Vinafélagið starfar til stuðnings sjálfseignarstofnuninni sem stendur að endurreisn gamla bæjarins sem hófst skipulega haustið 2014 eftir að hjónin í Múlakoti, Sigríður og Stefán, gáfu stofnuninni gömlu bæjatorfuna, húsakynni og garðinn.

Pétur Ármannsson arkitekt mun lýsa hvernig miðað hefur við endurbyggingu gömlu húsanna hér á eftir. Þá gefst tækifæri til að skoða gestastofu bæjarins.

*

Við völdum þetta kvöld til að koma hér saman til að fagna sérstaklega hve vel hefur miðað við endurreisn garðsins, nú síðast með þessu myndarlega grindverki umhverfis hann í sama lit og áður var.

Liðin eru 119 ár frá því að Guðbjörg Þorleifsdóttir, húsfreyja í Múlakoti, lagði grunn að garðinum. Þá gróðursetti hún í forarvilpu reyniplöntur sem bróðir hennar, Eyjólfur, færði henni úr Nauthúsagili sem er skammt fyrir innan Seljalandsfoss hér austan Markarfljóts.

Sigríður Hjartar hóf markvissa endurreisn garðsins eftir að þau Stefán eignuðust hann árið 2000. Mikilvæg þáttaskil urðu svo haustið 2015 þegar hingað komu nemendur í Landbúnaðaháskólanum á Reykjum í Ölfusi og tóku rösklega til hendi og síðan að nýju í apríl á þessu ári. Þriðja nemendaferðin verður hingað eftir fáeina daga.

Þessi samvinna við skólann og nemendur hans undir stjórn Guðríðar Helgadóttur er ómetanleg fyrir endurreisnina í Múlakoti. Mun Guðríður lýsa þessu tímamótastarfi hér í kvöld.

*

Löngum hefur Múlakot og garðurinn hlotið hástemmt lof. Ásgrímur Jónsson listmálari dvaldist hér snemma á síðustu öld og gerði ódauðleg verk. Í umsögn um sýningu sem hann hélt í apríl 1914 sagði í Morgunblaðinu að hér hefði hann sannarlega fundið Paradís á jarðríki.

Er ekki að efa að listaverk Ásgríms og lof um þau hafi auðveldað kynningu á garði Guðbjargar. Má til dæmis ráða það af grein í blaðinu Dagsbrún í júní 1918 þar sem fjallað er lofsamlega um hana og garðinn og sagt: „Reynslan sýnir, að í framfaraviðleitni þjóðanna eru það fáir menn, sem ríða á vaðið, sem allir aðrir fara á eftir, og má telja víst, að trjáræktin í Múlakoti verði á komandi mannsaldri öflug lyftistöng undir trjáræktina hér á landi.“

Hafa þetta reynst orð að sönnu.

*

Guðbjörg og maður hennar Túbal héldu upp á silfurbrúðkaup sitt í júní 1918 og af því tilefni sagði í blaðinu Ísafold:

„Ef íslenzk blóm mættu mæla, þá mundi þeirra sammæli verða, að nákvæmari, natnari og ástúðlegri móður og verndara mættu þau ekki kjósa sér en Guðbjörgu í Múlakoti. Garðurinn hennar er bezti votturinn um það. Hann er fegurstur og frjósamastur trjá- og blómgarður lands vors.“

Þetta var 21 ári eftir að fyrstu reyniplönturnar voru gróðursettar í garðinum. Séra Haraldur Níelsson prófessor fór hér um sjö árum síðar, 4. september 1925, á leið sinni inn í Fljótsdal á vegum Sálarrannsóknarfélagsins til að kynna sér dulskyggni hæfileika systra sem þar dvöldust.

Í erindi sem hann flutti um ferðina tuttugu dögum síðar sagðist hann oft hafa langað til að koma í Múlakot til þess „að skoða hinn fagra trjá- og blómgarð, sem nú er að verða frægur um alt Ísland“. Nú séu elstu reynitrén orðin 10 álna há í garði Guðbjargar en auk þeirra sé „þar og allmikið um birki, gulvíði og ribstré. Í skjóli þessara trjáa vex nú mesti sægur alls konar blóma og í einu garðshorninu hefir húsfreyja látið reisa ofurlítið sumarhús (tjaldað hvítum dúkum) — fyrir hina litlu fjárveiting, er Alþingi veitti henni í viðurkenningarskyni,“ segir Haraldur.

*

Allt þetta höfum við nú fyrir augunum 91 ári síðar. Hugmyndina að skrautljósunum fékk Ólafur Túbals, sonur Guðbjargar, árið 1929 þegar hann sá svona ljós í Tívolí í Kaupmannahöfn.

 

Góðir áheyrendur!

 

Markmið sjálfseignarstofnunarinnar og vinafélagsins er að varðveita garðinn, þessa lifandi þjóðargersemi, og húsakynnin hér í Múlakoti. Minningin um það sem menn kynntust hér á ekki aðeins að vera til á blöðum heldur skal hún blasa ljóslifandi við okkur.

Stjórn vinafélagsins þakkar öllum sem gert hafa henni kleift að efna til þessarar kvöldsamkomu og vonar að hún verði enn til efla skilning á mikilvægi endurreisnarinnar í Múlakoti og stuðning við hana.