Þriðjudagur 16. 08. 16
Félagsmál og þar með húsnæðismál hafa jafnan verið í höndum vinstri manna í ríkisstjórnum. Þeir hafa talið frumskyldu sína að hleypa sjálfstæðismönnum ekki beint að þessum málaflokki við ríkisstjórnarborðið.
Af núlifandi stjórnmálamönnum hafa fáir talað meira um húsnæðismál en Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar. Í alla áratugina sem hún sat á þingi leit hún á húsnæðismál sem sérsvið sitt og talaði oft eins og hún ein vissi hvernig ætti að móta stefnu sem sérstaklega tæki mið af hag hinna lakast settu.
Nauðsynlegt er að hafa þetta í huga núna þegar enn einu sinni eru kynnt ný úrræði í húsnæðismálum og vinstrsinnar býsnast yfir því að ekki sé nóg að gert fyrir hina tekjulægstu. Víst er að nýja stefnan auðveldar stórum hópi ungs fólks að eignast eigið húsnæði. Halda menn að væri til eitthvert eitt ráð til að gera þeim sem minnst bera úr býtum kleift að festa fé í húsnæði að vinstrisinnarnir hefðu ekki nýtt sér það? Að vísu þykjast þeir hafa gert það en því miður árangurslaust ef marka má stöðuna í húsnæðismálum núna. Að skella skuldinni vegna hennar á núverandi ríkisstjórn er fráleitt.
Í frétt ríkisstjórnarinnar vegna nýju aðgerðanna segir meðal annars:
„Á árunum 2005 til 2014 jókst hlutfall ungs fólks á leigumarkaði verulega, úr 12% í 31%. Jafnframt er fólk á aldrinum 25-29 ára mun líklegra til að búa í foreldrahúsum nú en fyrir áratug. Eftirspurn eftir minni íbúðum hefur einnig aukist mikið á undanförnum árum með tilheyrandi verðhækkun húsnæðis, en minnstu eignirnar hafa hækkað hlutfallslega mest og rúmlega tvöfalt meira en sérbýli frá árinu 2009.“
Þetta segir sína sögu um í hvert óefni hefur stefnt. Með aðgerðum sínum ætlar ríkisstjórnin að snúast gegn þessari þróun. Vonandi tekst það þrátt fyrir hefðbundna, málefnasnauða og árangurslausa afstöðu vinstri manna. Reynslan sýnir að þeir ráða ekki yfir neinu sem dugar til að móta skynsamlega, opinbera stefnu í húsnæðismálum. Þeim hefur verið trúað allof lengi fyrir yfirstjórn málaflokksins. Ástæðulaust er að taka mark á niðurrifstali þeirra í stjórnarandstöðu.