Þriðjudagur 23. 08. 16
Spurning er hvort Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra stefnir að formannsframboði í Framsóknarflokknum í krafti þess að hún styðji ekki langtímastefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og boði að leggja fram frumvarp um almannatryggingar og fá það samþykkt á síðustu dögunum fyrir þingrof þótt það hafi ekki enn verið samið að fullu og því síður samþykkt í ríkisstjórn.
Sagt var í hádegisfréttum ríkisútvarpsins að ósamda frumvarpið fæli í sér „verulegar breytingar og hækkanir á lífeyrisgreiðslum ekki síst gagnvart konum sem ekki hafi verið lengi á vinnumarkaði og körlum í láglaunastörfum“. Af orðum Eyglóar í fréttatímanum má ráða að ráðuneyti hennar hafi ekki lokið vinnu sinni við frumvarpið og þá sé hvorki vitað um umsögn forsætisráðuneytisins né fjármálaráðuneytisins. Mátti jafnvel skilja Eygló á þann veg að hún væri ekki viss um hvort umsagnir þessara ráðuneyta bærust. Fjármálaráðuneytinu er þó skylt að leggja fram kostnaðarmat á stjórnarfrumvörpum.
Af efni fréttarinnar má ráða að tilgangur Eyglóar með að ræða þetta mál á þann veg sem hún gerði hafi fyrst og síðast verið að skapa sér áróðursstöðu innan Framsóknarflokksins og gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Sýnir staðan í Framsóknarflokknum hve brýnt er að ganga sem fyrst til kosninga svo að nýtt umboð fáist fyrir nýja ríkisstjórn. Við mat á stöðu ríkisstjórnarinnar verður að leggja mat á vilja beggja stjórnarflokkanna til að standa saman að lausn mála.
Ágreiningur innan Framsóknarflokksins setur svip á þingflokk hans, fundi kjördæmaráða hans og teygir sig nú inn í ríkisstjórnina. Kalt mat á þessari stöðu leiðir til þeirrar niðurstöðu að boða verði til kosninga þar sem flokkunum er veitt nýtt umboð í ljósi þess sem þeir hafa fram að bjóða.