Föstudagur 05. 08. 16
Morgunblaðið reið loks á vaðið í gær og leitaði álits formanna VG og Samfylkingar á kröfu Birgittu Jónsdóttur, þingflokksformanns pírata, um að saminn yrði stjórnarsáttmáli fyrir kosningar og þar yrði gert ráð fyrir breytingu á stjórnarskránni og níu mánaða kjörtímabili að kosningum loknum.
Þegar um þetta var spurt kom að sjálfsögðu í ljós að hvorki Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingar, né Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, vilja semja um þetta. Þá standa flokkar þeirra beggja að samkomulagi um áfangabreytingar á stjórnarskránni sem er eitur í beinum Birgittu.
Í innsetningarræðunni 1. ágúst mælti Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands með málamiðlunarleið í stjórnaskrármálinu enda er hún hin hefðbundna íslenska aðferð við breytingar á stjórnarskránni þótt Jóhanna Sigurðardóttir hafi leitt málið í annan og verri farveg með stuðningi VG og Framsóknarflokksins vorið 2009.
Birgitta Jónsdóttir heldur fast í átakaleið Jóhönnu í stjórnarskrármálinu eins og fram kom þegar fréttamaður ríkisútvarpsins ræddi við hana um innsetningarræðu forsetans. Á ruv.is 2. ágúst er þetta haft eftir Birgittu:
„Hann [forsetinn] talar um að taka þetta í áfangaskrefum. Hann hefur reyndar gert það áður. Ef þjóðarviljinn er sá að við förum í stjórnarskrárbreytingar og við höfum til dæmis stutt kjörtímabil til þess að koma því á, þá framfylgi ég fremur vilja þjóðarinnar en forsetanum. Ef það er ekki vilji til þess þá þurfum við að sjálfsögðu að finna einhverjar leiðir til þess að koma á samfélagssáttmálanum sem var samþykktur af þjóðinni árið 2011.“
Í þessum ummælum vísar Birgitta annars vegar til „þjóðarvilja“ og hins vegar „samfélagssáttmála sem var samþykktur af þjóðinni árið 2011“. Að baki þessum orðum er engin innstæða, þetta er áróðurstugga sem fámennur hópur endurtekur. Þarna talar hún einnig um „stutt kjörtímabil“. Engin samstaða er um það frekar en annað sem Birgitta hefur fram að færa í þessu máli.
Nú fer fram prókjör hjá netvæddu pírötunum þar sem velja má milli 105 frambjóðenda í tölvukosningu. Ekki vill betur til en svo að forritið með frambjóðenunum veitir enga tryggingu fyrir því að atkvæði fari rétta boðleið, kerfið virðist einnig hreinsa á brott nöfn einhverra frambjóðenda.
Hver sem niðurstaðan verður í vandræðalegu prófkjöri pírata verða þeir að gera grein fyrir hvort Birgitta sé virkilega málpípa þeirra eða þeir fylki sér að baki öðrum til að auka trúverðugleika sinn og samstarfshæfni.