Sunnudagur 28. 08. 16
Ástæða er til að velta fyrir sér réttmæti þess að skrifa um framboð Viðreisnar á forsendum Sjálfstæðisflokksins. Þeir sem standa að Viðreisn hafa vissulega margir komið að starfi innan flokksins og vafalaust stutt hann oftar án beinnar þátttöku í flokksstarfinu. Þeir urðu hins vegar fúlir í garð flokksins á landsfundi snemma árs 2009 þegar samþykkt var málamiðlunartillaga sem við Friðrik Sophusson lögðum fram um að ekki yrði sótt um aðild að ESB nema þjóðin tæki ákvörðun um það í atkvæðagreiðslu.
Á landsfundi fyrir þingkosningar 2013 rufu ESB-sinnarnir þessa sátt. Fyrst á fundi utanríkismálanefndar fundarins og síðan á landsfundinum sjálfum. Þeir urðu undir í atkvæðagreiðslu á fundinum og sættu sig ekki við þá niðurstöðu heldur höfðu í hótunum við flokksforystuna og frambjóðendur. Síðan ákvað þessi fámenni hópur að segja skilið við flokkinn og býður nú fram undir nafninu Viðreisn.
Að vega og meta Viðreisn á forsendum Sjálfstæðisflokksins gefur alranga mynd af nýja flokknum. Viðreisn er í grunninn ESB-aðildarflokkur borinn uppi af ESB-aðildarsinnum sem telja sig ekki ná fram sjónarmiðum sínum innan Sjálfstæðisflokksins. Þeir höfða því ekki til þeirra sem aðhyllast stefnu Sjálfstæðisflokksins heldur hinna sem hafa starfað í flokkum með ESB-aðild á dagskrá, það er kjósenda Samfylkingarinnar og Bjartra framtíðar.
Við framboð Viðreisnar blasir við að Samfylking og Björt framtíð eru í rúst. Flokkarnir töpuðu skírskotun sinni sem einkum var reist á boðskap forystumanna flokkanna um að ganga í ESB og taka upp evru.
ESB-sinnar í Samfylkingunni fengu pólitísku óskastund sína vorið og sumarið 2009. Þeir klúðruðu svo ESB-málinu á svo eftirminnilegan hátt að nýi ESB-flokkurinn, Viðreisn, þorir ekki að flagga því nú fyrir kosningar.
Að ræða um Viðreisn á forsendum Sjálfstæðisflokksins gefur ranga mynd. Að sjálfsögðu á að ræða um Viðreisn á hennar eigin forsendum. Hornsteinn stefnu hennar er aðild að ESB. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hafnað þeirri stefnu.
Í sjálfu sér er ekki nýtt að ritað sé um íslensk stjórnmál, þau skýrð og skilgreind með vísan til Sjálfstæðisflokksins og forystumanna hans eins og þeir hafi í hendi sér að ráða þróun allra mála. Að því er Viðreisn varðar má rekja upptök hennar til samþykkta landsfundar Sjálfstæðisflokksins en eftir að forráðamenn Viðreisnar neituðu að fara að þessum samþykktum og kusu sér aðra leið er Sjálfstæðisflokkurinn einfaldlega án þeirra og heldur sína leið.