Fimmtudagur 18. 08. 16
Samtal mitt við Ólöfu Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra á ÍNN í gær má sjá hér
Hér var vakið máls á því á dögunum að Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri 365, hefði gert upp við Samfylkinguna vegna ESB-málsins í leiðara Fréttablaðsins laugardaginn 13. ágúst. Kristín sagði Samfylkinguna hafa klúðrað málinu og eyðilagt draumsýn sína. Niðurstaðan hér var að stjórnmálasamband stjórnenda 365 og Samfylkingarinnar sem hófst árið 2003 hefði rofnað.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, tók upp hanskann fyrir 365 eftir að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gagnrýndi Fréttablaðið á FB-síðu sinni miðvikudaginn 17. ágúst. Í Skjóðunni nafnlausum dálki í markaðsblaði Fréttablaðsins þennan sama miðvikudag var skrifað af þótta í garð Bjarna og spurt hvenær hann ætlaði að hætta að berja hausnum við steininn og viðurkenna þá ,,einföldu staðreynd" að leiðin til að bæta hag allra væri sú að taka upp alþjóðlega mynt.
Vegna þessa benti Bjarni á leiðara aðalritstjóra 365 um ESB-klúður Samfylkingarinnar og leiðara Þorbjörns Þórðarsonar, blaðamanns Fréttablaðsins, 17. ágúst þar sem sagt er að margir af virtustu hagfræðingum heims séu „nú sammála um að evran í núverandi mynd hafi verið mistök“. Þorbjörn segir: „Brestir á evrusvæðinu og óvissa um framtíð myntsamstarfsins gerir það varla fýsilegt fyrir Íslendinga að stefna á upptöku evru.“
Þetta vakti Bjarna undrun um „hve margir fjölmiðlar hér á landi virðast starfa án þess að nokkur ristjórnarstefna sé sjáanleg“. Bjarni segir:
„Hún gerist æ sterkari tilfinningin að vegna manneklu og fjárskorts séu viðkomandi miðlar orðnir lítið annað en skel, umgjörð um starfsemi þar sem hver fer fram á eigin forsendum. Engin stefna, markmið eða skilaboð og þar með nánast enginn tilgangur, annar en sá að vera til staðar fyrir þá sem þar vinna. Þeir skiptast síðan á að grípa gjallarhornið sem fjölmiðillinn er orðinn fyrir þá og dæla út skoðunum yfir samfélagið. Ein í dag - önnur á morgun. Borið út frítt. Hvers vegna ekki bara að opna Facebooksíðu og leyfa öllum að skrifa á vegginn?“
Þessi orð urðu Katrínu tilefni til að taka þykkjuna upp við Bjarna á þingfundi í dag. Sagt er að Jón Ásgeir Jóhannesson, ráðgjafi eiginkonu sinnar, eiganda 365, sé Skjóðan. Lagði Katrín grunn að nýju pólitísku bandalagi 365 við stjórnmálaflokk með ræðum sínum á alþingi í dag? Víst er að enginn annar stjórnarandstæðingur sá ástæðu til að bera blak af 365.