Sunnudagur 07. 08. 16
Á Facebook-síðu Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, má lesa þessa færslu að morgni sunnudags 7. ágúst:
„Á Bylgjunni eru Svandís [Svavarsdóttir þingflokksformaður VG], Birgitta [Jónsdóttir þingflokksformaður pírata], Óttarr [Proppé formaður Bjartrar framtíðar] og Oddný [Harðardóttir formaður Samfylkingarinnar] að lýsa minnihluta ofbeldinu sem notað var á stjórnvöld þegar Sigmundur Davíð var forsætisráðherra
Málið er einfalt:
Það er gríðarlegt ofbeldi sem beitt er í þinginu - frekjan er rosaleg - við höfum verið kölluð pólitískir hryggleysingjar og lindýr - ef þau fá ekki sínu fram - þá er þingið tekið í gíslingu - Svandís fer fyrir aðgerðum
Þingsköpin eru ónýt og allar breytingar á þeim undanfarin ár hafa að því að virðist vera samin af lögfræðilegum amatörum
Ég er meðal annars að hætta á þingi vegna þessa ofbeldis - forseti þingsins og forsætisnefnd þora ekki að beita sér til að laga ástandið
Nú slekk ég á útvarpinu - því ég get ekki hlustað á fólk skrifa/segja söguna upp á nýtt - og geng út í sólina“
Ég kveikti ekki á útvarpinu og veit því ekki hvað þar er um að vera enda í hróplegu ósamræmi við sólskinið að hlusta á upphrópanir og innihaldslaust tal stjórnarandstöðunnar. Hún hefur ekkert að bjóða.
Einmitt vegna þess að stjórnarandstaðan hefur ekkert að bjóða er undarlegt að andstæðingar hennar láta eins og hún fái nægan stuðning í kosningunum í haust til að mynda ríkisstjórn að þeim loknum og innleiða hér að nýju efnahagslegu helstefnuna sem ríkti 2009 til 2013.
Ég er sammála Vigdísi um þingsköpin. Þau eru eins og gatasigti og eiga ríkan þátt í virðingarleysinu sem ríkir gagnvart alþingi. Við beytingar á þingsköpum er jafnan skilin eftir einhver gloppa sem minnihlutinn getur nýtt sér til að ná hreðjartökum á þingheimi. Sé rætt að beita meirihlutavaldi til að binda enda á umræður taka innviðir þingsins að nötra.
Í breska þinginu var 18. júlí rædd og afgreidd tillaga um að endurnýja kjarnorkuherafla Breta, mjög umdeilt mál. Theresa May, nýorðin forsætisráðherra, flutti upphafsræðuna klukkan 15.00, þá talaði Jeremy Corbyn, leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Síðan sagði þingforseti að 52 væru á mælendaskrá, til að allir kæmust að fyrir atkvæðagreiðslu kl. 22.00 yrðu menn að stytta mál sitt. Það gekk eftir. Hvað hefði gerst í alþingi?