26.8.2016 10:30

Föstudagur 26. 08. 16

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, vildi ekki að efnt yrði til flokksþings fyrir kosningar. Hann greip til tafaleikja en þrjú kjördæmisráð hafa nú sagt hug sinn og flokksþing verður haldið. Sigmundur Davíð segist ætla að bjóða sig fram á ný til formennsku. Málsmetandi ráðamenn í flokknum segjast ekki fara gegn honum. 

Nú taka framsóknarhjólin að snúast hraðar og spennan eykst. Fyrr en siðar ætti að halda flokksþingið til að losa framsóknarmenn úr þessari spennitreyju.

Hildur Sverrisdóttir borgarfulltrúi býður sig fram í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík vegna alþingiskosninganna. Rætt er við hana í Fréttablaðinu í dag og er hún meðal annars spurð um afstöðuna til einkareksturs í heilbrigðiskerfinu. Hildur svarar:

„Ég held að það sé hægt að gera mun betur í því að bjóða upp á valfrelsi í velferðarmálum. Valfrelsi snýst um virðingu gagnvart til dæmis fólki sem er að eldast og vill gjarnan búa heima og stýra sinni þjónustu sjálft. Það sé ekki ríkisbragur á henni alltaf. Við sjálfstæðismenn höfum haft þá skoðun lengi að það sé í lagi, og það halli ekki á neinn, þó að við bjóðum upp á aukna þjónustu varðandi eitthvað sem þá kostar. Þessi tiltekna þjónusta hefði hvort sem er aldrei verið í boði hjá hinu opinbera en það væri hægt að kaupa sér aukaþjónustu og fá þannig peninga inn í kerfið til að standa betur að þeirri grunnþjónustu sem við viljum tryggja. [...] Vill almenningur kerfi þar sem aldrei má taka neina aðra snúninga. Það sé bara opið frá níu til fimm og þú færð þrif sem ná upp í einn metra og þrjátíu sentimetra en ekki hærra. Og að standa í biðröð? Við þekkjum alveg þetta kerfi og sjáum hvert það stefnir.“



Á öðrum stað í samtalinu segir Hildur: „Mér finnst oft meiri fordómar frá vinstri yfir til hægri en öfugt og hef verið hugsi yfir því hvernig hópur fólks lengst til vinstri, sem er mjög upptekið af því að vera fordómalaust gagnvart samkynhneigð eða trúarbrögðum, sem er gott og blessað, er mjög snöggt að vera með fordóma gagnvart einhverjum sem á pening.“

Það verður forvitnilegt að fylgjast með viðbrögðum talsmönnum pólitíska rétttrúnaðarins til vinstri við þessum hispurslausu skoðunum sem auðvitað eiga fyllsta rétt á sér og gott er að viðra opinberlega.