Laugardagur 13. 08. 16
Staðfest er í fréttum undanfarið að Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri hjá 365, hikar ekki við að víkja þeim úr starfi sem henni eru ekki að skapi. Ingibjörg S. Pálmadóttir, eigandi 365, og Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður Ingibjargar, fara sameiginlega með yfirstjórn fjölmiðlaveldisins og kalla þá á teppið sem sýna þeim ekki hollustu. Innan 365 ríkir hræðsla við eigendur og stjórnendur.
Í leiðara Fréttablaðsins í dag lyftir Kristín refsivendinum gegn Samfylkingunni fyrir að hafa klúðrað ESB-umsókninni. Hún segir:
„Af stað var hrundið atburðarás þar sem tíma, fé og og vinnu rándýrra sérfræðinga var eytt í að fínpússa samninga sem aldrei var raunhæft að yrðu að veruleika. Heilt ráðuneyti var skipulagt til að einblína á aðildarferlið í fyrirsjáanlegri framtíð. Samt var ESB-ferðin alltaf án fyrirheits og umsóknin að endingu dregin til baka. Nú situr utanríkisráðuneytið uppi með hóp sérfræðinga í Evrópumálum, sem eru verkefnalausir. […]
Samfylkingin á öðrum fremur sök á því að Evrópudyrunum hefur verið skellt á Íslendinga – í bili. […] Sá sem mest vildi, klúðraði. Af hverju ætti Evrópusambandið annars að taka upp þráðinn að nýju eftir það sem á undan er gengið? Af hverju ætti þjóðin að veðja á annað svona leikrit? […] Flokkurinn klúðraði draumsýn margra okkar og skaðaði hagsmuni lands og þjóðar.
Því skyldi engan undra að Samfylkingin eigi nú erfitt uppdráttar og reyni að samsama sig Pírötum af því að þeir eiga upp á pallborðið þessa stundina. Fall flokksins, sem fyrir stuttu taldi sig annan turnanna í íslenskum stjórnmálum er hátt. Sennilega væri flokksmönnum hollast að líta í eigin barm eftir sökudólgum.“
Hér talar sárreiður ESB-aðildarsinni sem segir draumsýn sína hafa verið eyðilagða af Samfylkingunni. Augljóst er að hjarta ráðamanna 365 slær ekki með Samfylkingunni fyrir kosningar í ár eins og verið hefur síðan 2003 þegar bandalag eigenda Fréttablaðsins var gert við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur um að koma Davíð Oddssyni frá völdum.
Ekkert af því sem Kristín Þorsteinsdóttir segir um ESB-aðildarferlið er ofsagt. Það er svartasta skeiðið í utanríkismálasögu íslenska lýðveldisins og sögu utanríkisþjónustunnar þar sem röngum ákvörðunum var fylgt fram með blekkingum.
Spennandi verður að sjá á hvern ráðamenn 365 veðja í kosningabaráttunni núna sem merkisbera ESB-aðildarinnar.