Þriðjudagur 30. 08. 16
Ríkið lagði áherslu á að auka gegnsæi og auðvelda foreldrum að fylgjast með framvindu skóla- og menntamála til dæmis með miðlun upplýsinga um niðurstöður samræmdra prófa og samanburð milli skóla. Frá öllu slíku hefur verið horfið. Einkunnagjöf með bókstöfum bregður meiri leyndarhjúpi yfir árangur í skólastarfi en áður hefur verið.
Ástæða er til að velta fyrir sér hvar umræður um þróun skólamála fer fram. Hún er að minnsta kosti ekki mikil í fjölmiðlum þegar hugað er að inntaki náms eða hvernig tíma nemenda er varið. Foreldrum er ef til vill miðlað svo miklum upplýsingum um skólastarfið á fundum eða á samfélagsmiðum að þeir telja sig ekki þurfa að afla sér frekari upplýsinga á opinberum vettvangi.
Nú þegar nýtt skólaár er að hefjast blasir mikill vandi við stjórnendum leikskóla og grunnskóla í Reykjavík. Boðleiðir innan borgarkerfisins eru svo flóknar eða seinfarnar að stjórnendur leikskóla telja sig verða að fjölmenna í ráðhúsið til að upplýsa Dag B. Eggertsson borgarstjóra um grunntölur varðandi rekstrarvanda leikskólanna.
Borgarstjóri og annar samfylkingarmaður, Skúli Helgason, nefndarformaður skólamála, láta eins og kvartanir stjórnenda leikskóla og grunnskóla séu einfaldlega reistar á misskilningi. Stjórnendurnir skilji ekki hve meirihlutinn hafi í raun gert mikið fyrir skólana.
„Við höfum lent á því núna liðnu skólaári að kennarar ákváðu að færa sig um set frá Reykjavík og fara yfir í nágrannasveitarfélögin því þar fengu þeir betri starfsaðstæður og jafnvel betur borgað,“ sagði Magnús Þór Jónsson, skólastjóri í Seljaskóla, í sjónvarpssamtali að kvöldi mánudags 29. ágúst.
Magnús sagði að 600 barna skóli fengi 20 milljónum krónum meira í sinn hlut í Kópavogi en í Reykjavík.
Krafa meirihluta borgarstjórnar um leynd og þöggun lét ekki á sér standa. Í sama fréttatíma hvatti Skúli Helgason til að ekki yrði talað um vandann. Þeir sem stæðu að skólamálum í Reykjavík ættu ekki „að senda út þau skilaboð að einhver stórkostleg vá sé fyrir dyrum“.