Mánudagur 22. 08. 16
Skólar eru nú að hefjast að nýju eftir sumarleyfi. Daglegt líf tekur á sig annan blæ. Þetta var til dæmis greinilegt í miðborg Reykjavíkur upp úr hádegi á föstudaginn þegar Lækjargata fylltist af ungu, glæsilegu fólki á leið úr Kvennaskólanum eða MR. Í stuttan tíma settu nemendurnir meira að segja meiri svip á gangstéttirnar en erlendu ferðamennirnir.
Í góða veðrinu var mannfjöldi fyrir framan Hörpu sem er á orðin miðstöð ferðamanna í miðborginni. Þar tekur fólk upp bitann sinn vilji það ekki fara á veitingastaði og salernisaðstaða er góð í húsinu. Þeir sem veita ferðaþjónustu hafa fengið aðstöðu í Hörpu meðal annars til að skipuleggja hópferðir.
Harpa hefur tekjur af þeim sem sækja þar ráðstefnur. Hvað með þá sem koma þangað til að borða nestið sitt? Aðstaða til þess er nauðsynleg í Reykjavík og vilji ráðamenn að Harpa sé nýtt í því skyni ber að taka ákvörðun um það og framfylgja henni meðal annars með því að borgaryfirvöld beri eðlilegan kostnað af slíkri þjónustumiðstöð.
Borgaryfirvöld hafa árum saman íþyngt rekstri Hörpu með ólögmætri innheimtu á fasteignagjöldum. Hvergi hefur birst að þau kunni að meta hve ríkan þátt húsið hefur átt i að skapa aðstöðu og afþreyingu fyrir erlenda ferðamenn í borginni.
Það er í raun undarlegt miðað við þróun undanfarinna ára að ekki skuli vera tvískipt stjórn á Hörpu. Annars vegar stjórn sem lýtur að listrænu hliðinni þar sem tónlistin með sinfóniuna í fararbroddi er þungamiðjan og hins vegnar stjórn sem ber ábyrgð á rekstri hússins og skapar þann ramma sem hæfir húsinu. Það var aldrei ætlunin að tónlistarstarfsemi bæri rekstur hússins í þessari mynd á herðum sér.
Nú hefur Leifur Magnússon upplýst í Morgunblaðinu að ríkið hefur ekki heimild til að selja Reykjavíkurborg neitt land í Vatnsmýrinni nema það sem er utan flugvallargirðingar og í því efni er stuðst við heimild í fjárlögum frá árinu 2013. Þrátt fyrir þetta er látið eins og ríkið geti selt borginni land innan girðingar vallarins.
Enn eitt stjórnsýsluhneykslið vegna flugvallarins er afhjúpað í grein Leifs. Það er fyrir löngu tímabært að alþingi taki af skarið um réttarstöðu Reykjavíkurflugvallar með sérstökum lögum til að losa starfsemina þar undan þeirri kvöð að vera háð duttlungum ráðamanna borgarinnar.