Föstudagur 12. 08. 16
Þau pólitísku stórtíðindi gerðust í dag að Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra tilkynnti brottför sína úr stjórnmálum, hann yrði ekki í kjöri í þingkosningunum sem ákveðnar hafa verið 29. október. Illugi hefur verið ráðherra síðan 2013 og einn af forvígismönnum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Framboðsfrestur í prófkjöri flokksins í borginni rann út í dag.
Kannanir undanfarið hafa sýnt að sjálfstæðismenn og píratar skiptast á að njóta mesta fylgis. Píratar hafa talað eins og þeir séu eina opna lýðræðisaflið í landinu. Sé tekið mið af þátttöku í prófkjöri pírata annars vegar og sjálfstæðismanna hins vegar sést að píratar standa sjálfstæðismönnum á engan hátt snúning. Að ímynda sér að aðeins 1033 einstaklingar tækju þátt í sameiginlegu prófkjöri sjálfstæðismanna í báðum kjördæmum Reykjavíkur og í suðvesturkjördæmi, kraganum svonefnda utan um höfuðborgina, er fráleitt.
Það voru aðeins 1033 sem kusu í sameiginlegu prófkjöri pírata í þessum þremur kjördæmum, var kosningaþátttakan aðeins 36% miðað við þá sem höfðu kosningarétt. Engin endurnýjun var: Birgitta, Jón Þór og Ásta sem öll hafa setið á þingi þetta kjörtímabil skipa þrjú efstu sætin. Gunnar Hrafn Jónsson sem sagði af sér sem fréttamaður ríkisútvarpsins til að helga sig baráttu pírata lenti í fimmta sæti og sjálfur Þór Saari, fyrrv. þingmaður, lenti í 11. sæti.
Áður en úrslitin í þessum þremur kjördæmum lágu fyrir höfðu píratar kynnt niðurstöður í prófkjörum sínum í suðurkjördæmi og norðausturkjördæmi.
Smári McCarthy mun leiða pírata í suðurkjördæmi eins og hann gerði í kosningunum árið 2013. Einungis 113 manns greiddu atkvæði í prófkjörinu í suðurkjördæmi. Alls voru 24 í framboði og kom því fjórðungur atkvæða í prófkjörinu frá frambjóðendum sjálfum segir á vefsíðunni Eyjunni. Þar segir einnig að þetta sé örlítið betri þátttaka en í prófkjöri pírata í norðausturkjördæmi þar sem aðeins 74 greiddu atkvæði.
Þessar tölur um fimm kjördæni landsins af sex sýna að aðeins 1220 manns tóku þátt í prófkjörum pírata þótt látið sé eins og þau séu öllum opin. Það er færra fólk en kemur að stefnumótun á landsfundi sjálfstæðismanna. Niðurstöður prófkjöra pírata sýna að þar hefur lítil klíka tögl og hagldir. Allt annað er argasta blekking enda fer Birgitta sínu fram án tillits til annarra.
Hvað sem skoðanakannanir um fylgi pírata segja er þar á ferð lítill frekar ólýðræðislegur hópur fólks sem villi helst kollvarpa stjórnarskrá lýðveldisins í einhverju áralöngu reiðikasti.