21.8.2016 12:15

Sunnudagur 21. 08. 16

Á vefsíðunni vardberg.is var í gær sagt frá sérkennilegri grein um Ísland á þýskri vefsíðu, Bürgerstimme, sjá hér

Fram kemur að á rússnesku net-fréttasíðunni Sputniknews hafi mánudaginn 15. ágúst birst endursögn af grein eftir Þjóðverjann Joachim Sondern á þýska netfréttablaðinu Bürgerstimme laugardaginn 13. ágúst. Sondern (f. 1984) lýsi sjálfum sér sem áhugamanni um þjóðfélagslega heimspeki.

Sputniknews er ein af áróðurssíðunum sem Vladimir Pútin Rússlandsforseti hefur ýtt úr vör til að útbreiða það sem rússnesku áróðursvélinni er þóknanlegt. Sondern fer ekki leynt með aðdáun sína á Pútín þegar hann segir Íslendinga í tapliðinu með því að leggjast flata fyrir Bandaríkjunum og NATO í stað þess að halla sér að þeim hópi ríkja þar sem Pútín hefur forystu. Sondern segir:

„Þegar öllu er á botninn hvolft eru það efnahagskerfi BRICS-ríkjanna [nýmarkaðsríkjanna Brasilíu, Rússlands, Indlands og Kína] sem duga best, fólk um allan heim viðurkennir hvílíka framtíð BRICS hefur undir Rússlandi. Hvort sem um er að ræða sjálfstæða mynt, þróunarbanka eða bann við erfðabreyttum matvælum – í öllum tilvikum boðar Valdimir Pútín nýja hugsun. Þetta er ástæðan fyrir ótta NATO-veldanna um að heimsmynd þeirra hrynji eftir því sem áhrif BRICS verða meiri á íbúa þeirra.“

Þetta er einkennilegur boðskapur hvernig sem á hann er litið en þó sérstaklega þegar staða Íslendinga er metin. Þeir hafa frelsi til að semja við allar þessar þjóðir eins og viðskiptasamningurinn við Kína sýnir. Raunar var það sjálfur Pútín sem bannaði innflutning á islenskum fiski og matvælum til Rússlands.

Í stað þess að segja beint að það komi sér illa fyrir hernaðarhagsmuni Rússa að Ísland sé í NATO og hafi tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin er ráðist ómaklega að Íslendingum, þeir hafi aldrei notið sjálfstæðis og láti blekkjast af lygum um ógn af Rússum.

Umhugsunarefni er hvað knýr Þjóðverja til að setjast niður og semja órökstuddan óhróður um Íslendinga vegna aðildar þeirra að NATO og að viðbúnaði til að tryggja stöðugleika og hernaðarlegt öryggi á N-Atlantshafi. Nærtækasta skýringin er að skrifin eigi að þjóna hagsmunum Rússa. Óþarfi er að leita langt yfir skammt í því efni.