Miðvikudagur 03. 08. 16
Í dag ræddi ég á ÍNN við Magnús Þór Hafsteinsson, fyrrverandi alþingismann, um bókina Þjóðarpláguna íslam eftir Hege Storhaug sem út kom í vor í þýðingu hans. Þátturinn er frumsýndur kl. 20.00 í kvöld á rás 20.
Efni innsetningarræðu Guðna Th. Jóhannessonar hefur verið til umræðu í fréttatímum ríkisútvarpsins.
Í gær sagði Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor til dæmis í fréttatíma að ræðan hefði markað tímamót „bæði varðandi form og innihald“ og þar hefðu verið boðaðir nýir umræðuhættir sem einkenndust af kurteisi og virðingu.
Ólafur Þ. hélt því fram að íslenskir umræðuhættir hefðu lengi „einkennst af karpi og stóryrðum í ætt við bresk og bandarísk stjórnmál“. Guðni Th. hefði hins vegar boðað „nýja umræðuhætti, meira í takt við norræn stjórnmál, sem einkennast þá af kurteisi, sanngirni, virðingu fyrir skoðunum andstæðinganna og hógværð“. Sér sýndist „hún bara hafa farið býsna vel ofan í okkar þrasgjörnu þjóð,“ sagði prófessorinn og bætti við þessari kveðju til Ólafs Ragnars Grímssonar:
„Nú eru gamlir bardagahundar úr gömlu hefðinni að hætta í íslenskum stjórnmálum og þetta er kannski rétti tíminn til þess að gera tilraun til að færa okkur yfir í norræna farið. En það verður ekki auðvelt.“
Lét Ólafur Þ. að því liggja að Guðni Th. hefði skilgreint sig frá Ólafi Ragnari með því að vilja „kurteislega og málefnalega“ umræðu um stjórnmál. „Þessi breyting á umræðuháttum væri mjög jákvæð fyrir íslenskt samfélag,“ sagði Ólafur Þ. í lok samtalsins.
Vafalaust vildi Ólafur Þ. vera kurteis og málefnalegur í þessum dómi sínum um ræðu Guðna Th. Fyrir hinu er þó auðvelt að færa rök að hann hafi oftúlkað innsetningarræðu nýja forsetans til að ná sér niðri á forvera hans og einhverjum fleirum „bardagahundum“ sem prófessornum eru greinilega ekki að skapi. Ólafur Þ. fyrr í sumar óvirðingarorðum um Davíð Oddsson, nú fær Ólafur Ragnar kalda kveðju hans í skjóli umsagnar um innsetningarræðu nýs forseta.
Í áranna rás hef ég hlustað á margar hátíðarræður og er þeirrar skoðunar að ræða Guðna Th. hafi hvorki markað tímamót í íslenskri umræðuhefð né fært stjórnmálaumræður í norrænan búning. Virðing Guðna Th. fyrir embætti forseta Íslands einkenndi ræðuna og einlægur vilji til að gera sitt besta. Jafnframt endurspeglaði ræðan breytingarnar sem orðið hafa á þjóðfélaginu með stökkinu frá einsleitni til fjölbreytni sem forseti vill ekki að valdi sundrungu.