Mánudagur 08. 08. 16
Í frétt á mbl.is sunnudaginn 7. ágúst var sagt frá útvarpsþætti þar sem Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður pírata, hefði lagt til „að allir flokkar geri tíu ára áætlanir um hvað þeir vilja sjá gerast í þjóðfélaginu“.
Já, nú vill Birgitta sjá tíu ára áætlun. Skyldu píratar hafa komið sér saman um hana? Þetta er algjör kúvending hjá Birgittu og líklega svar hennar við gagnrýni á hugmynd hennar um stjórnarsáttmála fyrir kosningar um níu mánaða kjörtímabil að þeim loknum til að breyta stjórnarskránni og kollvarpa stjórnarráðinu.
Má segja að það sé annað hvort í ökkla eða eyra hjá Birgittu og hún kjósi að vera á sífelldri hreyfingu svo að ekki sé unnt að saka hana um að hafa nokkra ákveðna skoðun. Hvernig skyldi hún ætla að gera áætlun til tíu ára?
Í danska blaðinu Jyllands-Posten er í dag sagt frá flokki pírata á Íslandi. Þar er rætt við píratana Sunnu Ævarsdóttur og Söru Óskarsson, en blaðamennirnir Thomas Aagaard og Mikkel Danielsen voru hér 26. apríl til 4. maí til að kynnast flokki pírata og boða fjórar greinar í blaðinu. Þeim sem fylgjast með íslenskum stjórnmálum er ljóst að andinn í greinunum endurspeglar það sem bar hæst á þeim tíma og gefur því ekki raunsanna mynd af stöðunni á líðandi stundu.
Þær stöllur draga upp eins svarta mynd af íslenskum ráðamönnum og þeim er unnt til að rökstyðja þá skoðun að komandi kosningabarátta verði sú „grimmasta“ sögunnar vegna mikillar reiði almennings. Um sjálfstæðismenn segir Sunna: „De er skide ligeglade med, om de fucker det op, eller om folk har mistet tilliden til dem.“
Boðað er að Sunna og Sara verði í framboði til þings í komandi kosningum. Ekki sé ástæða til að efast um að þær nái kjöri, það sé „real chance“ að þær verði ráðherrar.
Ástæða er til að velta fyrir sér hvort Sunna og Sara hafi sagt blaðamönnunum að líkindi bentu til að þær yrðu ráðherrar að loknum kosningum. Hafi þær gert það skortir þær ekki sjálfsöryggið um að bæði sigri þær í prófkjöri meðal pírata, komist á þing og takist að lokum að breyta stefnu pírata um að þingmenn megi ekki vera ráðherrar.