Fimmtudagur 11. 08. 16
Samtal mitt við Teit Björn Einarsson, aðstoðarmann fjármálaráðherra, á ÍNN i gær er komið á netið og má sjá það hér.
Ákvörðun Páls Magnússonar, fyrrv. útvarpsstjóra, um að bjóða sig fram í fyrsta sæti sjálfstæðismanna í suðurkjördæmi hefur vakið verðskuldaða athygli og umræður. Páll er þjóðkunnur maður vegna starfa sinna í fjölmiðlum. Faðir hans, Magnús H. Magnússon, var bæjarstjóri í Vestmannaeyjum í gosinu 1973 og þingmaður Alþýðuflokksins á Suðurlandi frá 1978 til 1983, félags-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1978–1980, jafnframt samgönguráðherra frá 1979.
Verður spennandi að sjá hvernig Páli vegnar á pólitískum vettvangi. Hann hefur oft kvatt sér hljóðs um stjórnmál á liðnum árum og látið forystumenn innan Sjálfstæðisflokksins finna fyrir gagnrýni sinni ekki síður en aðra.
Haukur Örn Birgisson, hrl. hjá Íslensku lögfræðisstofunni, ritar reglulega um lögfræðileg álitaefni í viðskiptablað Morgunblaðsins. Í dag ræðir hann þingrof og kosningar. Hann segir að „einhvers konar stjórnskipunarlegt neyðarástand“ þurfi „að koma til svo þing sé rofið“. Er það svo? Hver hefur mótað þá venju? Nægir ekki póitískt mat forsætisráðherra? Er það ekki einmitt vegna þess sem stundum hefur verið um það samið við stjórnarmyndun að þing skuli ekki rofið nema stjórnarflokkarnir séu sammála um það?
Fimmta apríl 2016 fór þáverandi forsætisráðherra á fund forseta Íslands og taldi forseti að hann ætlaði að leggja fyrir sig tillögu um þingrof og bað um umþóttunartíma. Ráðherrann sagði síðan af sér síðdegis. Þeir sem tóku við keflinu af honum gáfu yfirlýsingu um að stefnt skyldi að þingrofi og kosningum haustið 2016 enda gæfist svigrúm til afgreiðslu ákveðinna mála. Höfðu þeir umboð þingflokka sinna til þessara yfirlýsinga.
Að láta eins og þessi aðdragandi þingrofsins skipti engu máli gefur ekki rétta mynd.
Hver sem aðdragandinn er þá er þingrofsvaldið i höndum forsætisráðherra og hann er ekki bundinn af „einhvers konar stjórnskipulegu neyðarástandi“. Í grein sinni nefnir Haukur Örn Birgisson einnig „stjórnskipuleg grundvallarsjónarmið“ til sögunnar og telur Ögmund Jónasson fylgja þeim með því að leggja til að ákvörðun um þingrof verði borin undir alþingi. Ástæða er til að velta fyrir um hvaða stjórnarskrá þeir félagar eru að tala. Hvergi er vikið að þessari aðferð í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.