Sunnudagur 14. 08. 16
Nú segir breska blaðið The Sunday Times að Bretar muni ekki ganga úr ESB fyrr en undir árslok 2019 vegna þess að „uppnám“ sé vegna málsins í ríkisstjórninni. Segir blaðið að ráðherrar hafi gert áhrifamönnum í fjármálaheiminum í London viðvart um að mjög ósennilegt sé að 50. gr. ESB-sáttmálans um úrsögn úr sambandinu verði virkjuð í ársbyrjun 2017 en við það hefst tveggja ára samningaferli um úrsögnina.
Meginvandi Theresu May og stjórnar hennar er að innan breska stjórnarráðsins og meðal stjórnmálamanna veit enginn hvaða leið er best úr ESB, það skortir bæði samningsmarkmið og sérfræðinga. Telur ríkisstjórnin skynsamlegra að gefa sér góðan tíma til undirbúnings en láta slag standa.
Deilur í Bretlandi um dagsetningar varðandi úrsögnina og upphaf ferðarinnar úr ESB minna dálítið að talið hér á landi vorið 2009 um nauðsyn hraðferðar inn í ESB, Annars vegar töluðu ESB-aðildarsinnar á þann veg að nota yrði tækifærið af því að „hér varð hrun“ til að sækja um aðild og hins vegar að úr því að Carl Bildt og Svíar tækju við umsókninni yrði hún afgreidd með hraði og það tæki kannski í mesta lagi 18 mánuði að ganga frá aðildarsamningi sem yrði lagður fyrir þjóðina.
Tillögu um að spyrja þjóðina fyrst hvort hún vildi ESB-umsókn var hafnað. Slíkt þekktist ekki meðal siðaðra þjóða. Rokið var undirbúningslaust af stað, allur málatilbúnaðurinn reyndist rangur og málsmeðferðin tómt klúður. Í raun varð úr þessu einstakt hneyksli í utanríkismálasögu þjóðarinnar.
Breska ríkisstjórnin fékk umboð og fyrirmæli þjóðarinnar um að ganga úr ESB. Það kom henni og embættismönnum hennar í opna skjöldu. Forsætisráðherrann David Cameron sagði af sér, nýr forsætisráðherra og ný ríkisstjórn kom til sögunnar og vill hún vanda sig. Stjórnin ætti að láta hroðvirkni ESB-aðildarríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur verða sér víti til varnaðar.
Jóhanna og Össur höfðu að vísu aldrei neitt umsóknarumboð frá þjóðinni þótt þau létu stundum í það skína að þau mundu gera svo góðan samning að öll þjóðin samþykkti hann. Allt var það blekking eins og annað hjá ESB-aðildarsinnum. ESB-úrsagnarsinnar í Bretlandi eru óþolinmóðir. Vilji þeir læra af samskiptareynslu okkar Íslendinga við ESB sjá þeir að best er að gefa sér góðan tíma til undirbúnings, afla sér nægrar þekkingar og hvorki blekkja sjálfa sig né aðra.