20.8.2016 11:00

Laugardagur 20. 08. 16

Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrverandi blaðamaður á Fréttablaðinu og  varaborgarfulltrúi R-listans, svaraði fyrir nokkrum vikum spurningu blaðamanns um hvort hann ætlaði að bjóða sig fram á vegum vinstri-grænna í komandi þingkosningum. Hann sagði nefnd á vegum flokksins vinna að uppstillingu lista í Reykjavík, en síðan yrði flokksráð að samþykkja hann. Svarið var með öðrum orðið opið.

Vegna komandi þingkosninga er Kolbeinn tekinn til við að skrifa að nýju um pólitík í aðsendum greinum til Fréttablaðsins. Boðskapur hans er að Steingrímur J. Sigfússon hafi staðið sig einstaklega vel sem fjármálaráðherra.

Kolbeinn vill á þennan hátt gera lítið úr árangri í ríkisfjármálum í ráðherratíð Bjarna Benediktssonar. Taldi Kobeinn (í grein 18. ágúst) Bjarna fara með rangt mál þegar hann sagði á þingi að afgangur á fjárlögum yfirstandandi árs yrði meiri en allur uppsafnaður halli vinstristjórnarinnar. Bjarni svaraði Kolbeini samdægurs á FB-síðu sinni og ítrekaði að á árunum 2009, 2010, 2011 og 2012 hefði samanlagður halli ríkissjóðs verið rétt um 390 milljarðar. Það væri einnig staðreynd að það stefndi í um 400 milljarða afgang á fjárlögum yfirstandandi árs. Það væri meira en allur uppsafnaður halli vinstristjórnaráranna.

Bjarni sýndi að Kolbeinn fór með rangt mál í fleiri en einu tilliti í blaðagrein sinni. Kolbeinn vildi þó eiga síðasta orðið og sagði í nýrri grein í Fréttablaðinu (19. ágúst) að Bjarni væri „óvenju pirraður þessa dagana“! Kolbeinn gafst þannig upp á málefnalegum rökræðum. Birtist það meðal annars í þeim rangfærslum hans að ríkissjóður hefði staðið illa þegar bankakerfið hrundi fyrir átta árum. Það var einmitt einstaklega sterk staða ríkissjóðs þá sem auðveldaði öll átök við ríkisfjármálavandann vegna hrunsins.

Rangfærslurnar í málflutningi Kolbeins Óttarssona Proppé sýna hvaða leið hann telur líklegasta til að verða valinn á framboðslista VG í Reykjavík: að taka upp hanskann fyrir Steingrím J. Sigfússon sem fjármálaráðherra – manninn sem afhenti kröfuhöfunum bankana með leynd, notaði hrunið til að innleiða skattkerfi í anda sósíalista og vildi setja Icesave-klafann á þjóðina svo að aðeins fátt eitt sé nefnt. Sé fortíðarþrá til hörmungarstjórnar Jóhönnu og Steingríms J. varða á leið til fram innan VG lofar það ekki góðu um framtíðina.