Þriðjudagur 02. 08. 16
Menn minnast Ólafs Ragnars Grímssonar á ólíkan hátt sem forseta Íslands. Hér skulu endurbirt ummæli tveggja álitsgjafa á vinstri kantinum um hann. Ummælin birtust þau á blog-síðu Egils Helgasonar mánudaginn 1. ágúst.
Egill sagði sjálfur:
„En það má minnast þess á degi forsetaskipta að það var í raun fráfarandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, sem gaf íslensku útrásinni mál, mótaði orðfæri hennar og hugmyndagrundvöll öðrum fremur. Ólafur hrósaði sér af sambandi sínu við verkamenn og bændur í viðtali [við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur í ríkissjónvarpinu] í gærkvöldi, en það er samt staðreynd að fáir íslenskir stjórnmálamenn hafa verið haldir jafnmikilli glýju gagnvart valdi peninga og þeim sem eiga mikið af þeim.“
Í athugasemd við þessa blog-færslu Egils segir Illugi Jökulsson:
„Ég hef sagt það áður og segi það enn: Þegar útrásin hófst, þá vissi ópeningafróður maður eins og ég ekkert um hvort einhver glóra væri í þessu. Sumt virtist augljóslega tómt rugl. En að lokum tók ég þann pól í hæðina að fyrst Ólafur Ragnar - sem átti þó að heita einhvers konar vinstri maður - taldi þetta gott og gilt, þá gæti þetta allt saman varla verið á algjörum sandi reist. Mér fannst vandræðalegt rausið í Ólafi Ragnari um eðli Íslendinga, en trúði því að maður eins og hann tæki ekki þá miklu áhættu að knýta sig svo mjög við útrásarvíkingana nema hafa gengið úr skugga að þetta allt væri bæði á traustum grunni reist, og þokkalega siðlegt. Ég held að hrifning Ólafs Ragnars á útrásinni hafi sannfært fleiri en mig um það sama. Allt reyndist þetta blekking ein. Ég skal fúslega viðurkenna að ég á erfitt með að fyrirgefa Ólafi Ragnari þetta.“
Þá segir Egill einnig í athugasemd á eigin síðu:
„Ólafur bjó til sjálft orðfærið sem var notað í útrásinni. Gaf þessu öllu lögmæti og ákveðinn hugmyndagrundvöll að standa á. Hann í raun seldi sig alltof djúpt inn í þetta fyrirbæri. Manni dettur sumpart í hug Blair á Englandi sem hliðstæðu. Hann var líka svona heillaður af peningavaldi.“
Vilji þeir sem kalla sig sanna vinstrisinna eða sósíalista í breska Verkamannaflokknum staðfesta eigið ágæti gera þeir það með því að hallmæla Tony Blair, sigursælasta leiðtoga Verkamannaflokknum.