Laugardagur 06. 08. 16
Þegar enn var rætt um aðild við fulltrúa ESB um aðild Íslands að sambandinu kepptust talsmenn viðræðnanna með Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og embættismenn hans í broddi fylkingar við að lýsa þeirri skoðun að engin tengsl væru á milli viðræðnanna og ákvarðana um makrílveiðar á Íslandsmiðum.
Eftir að viðræðunum var slitið og aðildarumsókninni skilað er pólitíska andrúmsloftið allt annað vegna ákvarðana íslenskra stjórnvalda um veiðarnar – ögranir og beinar hótanir af hálfu ESB eru úr sögunni. Skotar og Írar telja sig ekki lengur geta beitt sama pólitíska þrýstingi og þeir gerðu á tíma viðræðnanna. Íslensk stjórnvöld eru með öðrum frjáls undan afskiptum Brusselmanna og ESB-ríkjanna.
Í ár er heimilt að veiða 166.000 tonn af makríl við Ísland en aldrei hefur veiðst svo mikið og á þessu stigi er óvíst að takist að ná öllum þessum afla en þá er þess jafnframt að geta að í ár stunda íslensk skip einnig veiðar í grænlenskri lögsögu sem ekki var árið 2015. Föstudaginn 5. ágúst var sagt frá því að þá næmi makrílveiði grænlenskra skipa og íslenskra skipa í leigu grænlenskra aðila samtals rúmum 26.600 tonnum í grænlensku lögsögunni.
Sé staðan nú borin saman við það sem var á tíma ESB-aðildarviðræðnanna er í raun ótrúlegt að íslenskir stjórnmála- og embættismenn skyldu leyfa sér að halda því að þjóðinni að engin tengsl væru á milli makríl-deilunnar og ESB-aðildarviðræðnanna. Greining á þessum málflutningi rennir enn stoðum undir þá skoðun að tími ESB-viðræðnanna hafi verið svartasti tíminn í utanríkismálasögu lýðveldistímans.