Þjóðaröryggi Noregs og Íslands
Grein í Morgunblaðinu 15. maí 2015
Undir lok apríl birtist skýrsla í Noregi um mat á þáttum sem leggja beri til grundvallar til að tryggja að her landsins geti sinnt frumskyldu sinni, að gæta öryggis lands og þjóðar, Skýrslan var unnin af hópi óháðra sérfræðinga undir formennsku Rolfs Tamnes, sagnfræðings og prófessors við Institutt for forsvarsstudier (IFS), Rannsóknastofnun varnarmála.
Er þetta í fyrsta sinn sem varnarmálaráðherra Noregs felur hópi manna utan stjórnarráðs, þings og hers að leggja mat á öryggishagsmuni landsins og leiðir til að tryggja þá. Þegar ráðherrann, Ine Eriksen Søreide, tók við skýrslunni sagðist hún hafa beðið um hana af því að hún teldi mikilvægt að fá óhlutdrægt mat á því sem blasti við herafla landsins.
Meginniðurstaða sérfræðinganna er að tarfarlaust verði að gera ráðstafanir til að efla getu hersins til að takast á við mest krefjandi verkefni sem lúta að hættuástandi og hernaði í nágrenni Noregs. Herinn sé ekki nægilega vel búinn til að takast á við samtíma ógnir. Hryðjuverk, tölvuárásir og langdrægar eldflaugar, allt ógni þetta Noregi en vegna legu landsins séu tengslin við Rússland ráðandi þáttur við skipulag á aðgerðum hersins. Þess vegna verði Norðmenn að styrkja stöðu sína á norðurslóðum. Hervæðing í Rússlandi og „blendings“ aðferð Rússa í Úkraínu hafi leitt til þess að Norðmenn verði tafarlaust að endurskoða inntak „varanlegs ástands“ í samskiptum sínum við Rússa. Floti, flugher og landher Norðmanna verði að efna til fleiri æfinga og norðar en áður og oftar í samvinnu við bandalagsríki Noregs. Hið nýja varanlega ástand verði að mótast af „sameiginlegu átaki“ norsks samfélags, hers Noregs og bandamanna Norðmanna.
Skýrslan ber heitið Et fælles løft – Sameiginlegt átak. Á blaðsíðu 67 segir að efla beri varnarsamstarf Norðmanna við þjóðir Norður-Evrópu. Þjóðverjar og Bretar hafi þar sérstöðu vegna öflugs herafla þeirra. Lengi hafi verið náin hernaðarleg samvinna milli Norðmanna og Hollendinga. Danir standi traustan vörð um NATO með mikilvægu framlagi sínu og gagnist það Norðmönnum. Ísland kunni í framtíðinni að gegna mikilvægu hlutverki í varnarsamstarfi á norðurslóðum, einkum þegar litið sé til eftirlits á sjó og í lofti. Það gæti skipt miklu strategískt og hernaðarlega fyrir Norðmenn.
Sagan endurtekur sig
Á Norðurlöndum leggja stjórnvöld ríka áherslu á víðtæka pólitíska samstöðu um stefnuna í varnarmálum og langtíma fjárveitingar til herja landanna. Árið 2016 leggur norski varnarmálaráðherrann tillögu um þróun norska hersins næstu ár fyrir stórþingið. Ráðherrann segir að skýrsla sérfræðinganna sé til þess fallin að skapa grunn undir almennar umræður sem fram þurfi að fara áður en þingmenn taki ákvörðun um fjárlagaramma hersins næstu ár.
Norðmenn hafa ákveðið að endurnýja flugher sinn með F-35 orrustuþotum og einnig eru áform um endurnýjun á kafbátaflotanum. Bent er á að Rússar leggi mikla áherslu á kjarnorkukafbátastöðvar sínar á Kóla-skaga austan landamæra Noregs og aðgerðir til að verja kafbátana sem kalli á vaxandi hernaðarumsvif við strendur Noregs. Minna umræðurnar nú á það sem var fyrir hálfri öld þegar sovésku kafbátarnir tóku fyrst að sækja út á Norður-Atlantshaf.
Í upphafi áttunda áratugarins höfðu norskir sérfræðingar og fræðimenn forystu um að draga athygli annarra sérfræðinga og síðan stjórnmálamanna að þessari þróun og mótaði hún mjög varnarstefnu Bandaríkjanna og NATO á Norður-Atlantshafi sem birtist til dæmis í endurnýjun Keflavíkurstöðvarinnar á áttunda áratugnum sem þá varð ein mikilvægasta stöð bandaríska flotans til kafbátavarna og eftirlits með flugumferð.
Þjóðaröryggisstefna Íslands
Utanríkismálanefnd alþingis fjallar nú um tillögu utanríkisráðherra til þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Alþingi samþykkti í september 2011 að nefnd þingmanna allra þáverandi þingflokka skyldi semja tillögu um þessa stefnu. Gekk það eftir og var tillögunum skilað til utanríkisráðherra 20. febrúar 2014.
Tillögur nefndarinnar eru ekki síst merkilegar vegna þess að þar segja allir nefndarmenn að með aðildinni að NATO og varnarsamningnum við Bandaríkin sé öryggi lands og þjóðar best tryggt.
Veikleiki tillögunnar, sem nú er til meðferðar í utanríkismálanefnd, er að áhættumatið sem liggur henni til grundvallar er reist á skýrslu sem skilað var til stjórnvalda árið 2009. Margt í þessu mati stendur tímans tönn t.d. um náttúruhamfarir, hafi gosið við Bárðarbungu ekki orðið til að breyta því. Hættur vegna tölvuárása, hryðjuverka eða hernaðarlegrar spennu hafa hins vegar aukist hér eins og annars staðar frá árinu 2009.
Á fundi sem Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, hélt með Ólöfu Nordal innanríkisráðherra hinn 5. febrúar 2015 var hún spurð hver væri varnarmálaráðherra Íslands og taldi Ólöf að innanríkisráðherra gegndi því hlutverki. Íslensk stjórnvöld ráða aðeins yfir borgaralegum stofnunum til að verja og vernda borgarana og þessar stofnanir falla undir innanríkisráðuneytið er því auðvelt að sjá rökin fyrir þessu svari ráðherrans.
Þrátt fyrir þau flytur Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra alþingi tillögu um þjóðaröryggisstefnu. Þetta er arfur frá hlutverki sem utanríkisráðuneytið gegndi fram til ársins 2006 þegar varnarliðið hvarf úr landi. Innanríkisráðuneytið styðst við sérfræðilega ráðgjöf um hættumat frá greiningardeild ríkislögreglustjóra. Utanríkisráðuneytið hefur ekki aðgang að neinni sambærilegri sérþekkingu við mat á hættu.
Norska nefndin sem skilaði 100 bls. skýrslu í lok apríl 2015 var skipuð um miðjan desember 2014. Áður en utanríkismálanefnd alþingis lýkur afgreiðslu sinni á tillögu utanríkisráðherra ætti forsætisráðherra að fela hópi sérfróðra manna hér að semja skýrslu um hernaðarlega hlið þjóðaröryggis Íslendinga, skipan þessa mikilvæga þáttar innan stjórnkerfisins og ytra samstarf og áreiti.