15.8.2016 14:00

Mánudagur 15. 08. 16

Engu er líkara en tveir Framsóknarflokkar starfi nú í landinu. Sá sem fylgir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni flokksformanni að málum og hinn sem stendur að baki Sigurði Inga Jóhannssyni, forsætisráðherra og varaformanni flokksins.

Sigurður Ingi lýsir skoðun sinni um flokksmálefni, telur til dæmis að efna beri til flokksþings fyrir kosningar, nefnir ákveðna dagsetningu fyrir kjördag og ákveður hvaða mál skuli setja á oddinn. Sigmundur Davíð talar í véfréttarstíl og vill til dæmis ekki svara spurningu fréttamanns ríkisútvarpsins um hvort hann muni sem flokksformaður leggja til á miðstjórnarfundi 10. september að boðað skuli strax til flokksþings eða ekki.

Þingmenn flokksins tala um einhug innan sinna raða eftir að þeir hittast. Þórunn Egilsdóttir, varaformaður þingflokks Framsóknarflokksins, sagði í ríkisútvarpinu í morgun að þingkosningar yrðu í haust. Enginn hefði mótmælt þeirri ákvörðun á fundi þingflokksins að kvöldi sunnudagsins 14. ágúst. Þórunn sagði að á fundinum hefðu þingmenn stillt saman strengi.

Miðað við málflutning framsóknarþingmannanna Vigdísar Hauksdóttur, Gunnars Braga Sveinssonar, Sigmundar Davíðs  og Þorsteins Sæmundssonar gegn ákvörðun um að kosið skuli til þings 29. október 2016 koma orð Þórunnar nokkuð á óvart enda er gengið að því sem vísu að þingmennirnir fjórir hafi setið þingflokksfundinn.

Þögn þeirra á þingflokksfundinum kann að vera til marks um að þeir átti sig á að ekki sé vænlegt til eflingar flokknum að hann snúist gegn því að kjósendur fái tækifæri til að leggja dóm á störf þingmanna fyrr en síðar.

Miðað við sterka málefnastöðu ríkisstjórnarinnar sem styrktist enn frekar í dag með tillögunum sem kynntar voru í húsnæðis- og verðtryggingarmálum er sérkennilegt að innan Framsóknarflokksins skuli menn setja á deilur um atriði sem snerta form en ekki efni og eru til þess eins fallin að draga úr trausti til flokksins.