26.8.1998 0:00

Miðvikudagur 26.8.1998

Fyrir hádegi hitti ég forystumenn í hinu nýja sveitarfélagi á Héraði og ræddi við þá um framtíð húsanna að Eiðum. Menntaskólinn á Egilsstöðum mun ekki nýta þessi hús næsta vetur og unnið hefur verið að því að finna þeim ný verkefni. Æskilegast væri, að þarna yrði starfsemi, sem samræmdist óskum um að fleira háskólamenntað fólk starfaði á Austfjörðum. Þar eins og annars staðar átta menn sig æ betur á því, að kjarnar með háskólamenntuðu fólki eru æskilegir til að styrkja almennar forsendur byggðar, skóla- og menningarstarf. Síðdegis fórum við í stutta gönguferð um Hallormsstaðaskóg undir leiðsögn Þrastar Eysteinssonar aðstoðarskógræktarstjóra. Var fróðlegt að fá stutta kennslustund hjá honum í trjásafninu. Þá héldum við að Skriðuklaustri, þar sem ég sat fund stjórnar Gunnarsstofnunar, sem starfar samkvæmt reglum frá því í desember 1997 og fer með stjórn hins mikla húss, sem Gunnar Gunnarsson skáld og Franziska kona hans gáfu íslensku þjóðinni í desember 1948. Húsið hefur verið nýtt á margan hátt. Þar er gestaíbúð, sem kallast Klaustur, fyrir lista- og fræðimenn. Tilefni heimsóknarinnar í Klaustur var meðal annars að afhenda þar nýja tölvu, en við Þorsteinn I. Sigfússon, prófessor og formaður framkvæmdanefndar Olympíuleikanna í eðlisfræði, ákváðum að gefa Klaustri eina af hinum fullkomnu IBM-tölvum, sem notaðar voru við leikana. Hafði Þorsteinn dvaldist í Klaustri dagana á undan með fjölskyldu sinni og reynt gripinn, meðal annars tengt hann við netið með góðum árangri. Með tölvunni stækkar þannig sjóndeildarhringur þeirra, sem dveljast á þessum einstaka stað og öllu aðstaða til vinnu og fræðistarfa batnar. Eru allar forsendur fyrir því að gera Skriðuklaustur að menningarsetri fyrir Austurland, ef menn einbeita sér að því og leyst verður úr jarða- og fasteignamálum á staðnum með það markmið í huga. Hitti ég meðal annars hreppsnefnd Fljótsdælinga og erum við einhuga um þann þátt málsins. Héldum við síðan heim með kvöldvélinni frá Egilsstöðum, kvöddum langþráð blíðviðrið og sólbirtuna þar og héldum í rigninguna fyrir sunnan. Austfirðingar ræða mikið um atvinnu- og byggðaþróun og hafa nokkrar áhyggjur af þróun mála vegna brottflutnings fólks. Erfitt er að andmæla þeim, sem segja, að öflugt stóriðjufyrirtæki á Austfjörðum muni styrkja byggð þar. Leita verður leiða til að sætta sjónarmið umhverfisverndar og tillögur um virkjanir. Hiti er hlaupinn í málið og áróðursstríð hafið, til dæmis heyrði ég því fleygt, að ýmsum þætti nóg um, hvernig Ríkisútvarpið, einkum svæðisstjórinn á Austfjörðum, tæki einhliða afstöðu með umhverfissinum. Mál eru komin á viðkvæmt stig, þegar fjölmiðlar eru dregnir í dilka með þessum hætti.