Miðvikudagur 19.8.1998
Sídegis fór ég á Þjóðbrautina á Bylgjunni og ræddi þar með stjórnendum hennar, þeim Hrafni og Jakobi, við Harald Johannessen, málsvara Vef-Þjóðviljans, var tilefnið orð, sem ég lét falla í síðasta vikupistli mínum um afstöðu Vef-Þjóðviljans til tónlistarhússins. Í þættinum kom fram, að Haraldur er ekki á móti því, að tónlistarhús rísi, heldur vill hann ekki auka umfang ríkisins eins og hann telur, að gerist með því að ríkissjóður fjármagni byggingu hússins. Ég leitaðist við að rökstyðja, hvers vegna eðlilegt væri að verja opinberu fjármagni til hússins. Er það skoðun mín, að mannvirkjagerð af þessu tagi falli undir eðlilegt hlutverk opinberra aðila hér á landi eins og annars staðar, að sjálfsögðu má deila um, hvort ríkið á að koma að málinu, þetta eigi að vera verkefni sveitarfélagsins, Reykjavíkur, eins og tónlistarhúsið í Kópavogi er byggt af bænum þar, til þess er hins vegar að líta, að ríkið rekur Sinfóníuhljómsveit Íslands með öðrum og á að sjá henni fyrir viðunandi starfsaðstöðu. Eðlilega gætir töluverðrar óþreyju hjá þeim, sem mest þrá tónlistarhúsið. Undir forsjá menntamálaráðuneytisins hefur verið unnið mikið starf til að undirbúa skynsamlega ákvörðun um málið, við bíðum hins vegar eftir ákvörðun Reykjavíkurborgar um lóð undir húsið auk þess sem nefnd á vegum samhönguráðherra um ráðstefnumiðstöð er leggja lokahönd á sitt verk, en hún hefur samþykkt þá grundvallarhugmynd, að ráðstefnumiðstöð og tónlistarhús rísi saman og gerðar verði 100% kröfur um hljómgæði og annað, sem gerir tónlistarhús að frábæru tónlistarhúsi.