5.8.1998 0:00

Miðvikudagur 5.8.1998

Fór síðdegis með ráðuneytismönnum í Þjóðminjasafnið og nýja geymsluaðstöðu fyrir muni þess í Vesturveri í Kópavogi. Starfsmenn safnsins eru nú af mikilli alúð að ganga frá gripum þess, sem verða fluttir í Kópavog og geymdir þar á meðan ráðist er í það stórvirki að endurbyggja hús safnsins. Ríkisstjórnin samþykkti fyrr á árinu þá tillögu mína, að ráðist yrði í þessar framkvæmdir og auk þess fengi safnið afnot af Atvinnudeildarhúsinu svonefnda á háskólalóðinni. Með þeirri samþykkt var bundinn endi á óvissu um framtíðaraðsetur safnsins, en á síðasta kjörtímabili ræddi forveri minn um, að reist yrði nýtt hús yfir safnið á milli Hótel Sögu og Þjóðarbókhlöðunnar. Hafði lengi vafist fyrir mönnum að taka af skarið í þessu efni.