21.8.1998 0:00

Föstudagur 21.8.1998

Klukkan 8.30 hófst ráðstefna í Háskólabíói í tilefni af 50 ára afmæli Tilraunastöðvarinnar á Keldum og flutti ég þar ávarp. Á ríkisstjórnarfundi sem haldinn var fyrir hádegi voru afgreidd tvö mikilvæg málefni, sem snerta rannsóknir og vísindi. Í fyrsta lagi var ákveðið að fylgja fram markáætlun um upplýsingatækni og umhverfismál, sem Rannsóknarráð Íslands samdi að minni ósk og kynnt var á ársfundi ráðsins 22. apríl 1998, í öðru lagi var samþykkt tillaga okkar dómsmálaráðherra að flytja Aflfræðistofnun Háskóla Íslands á Selfoss og auka þjónustu hennar við Almannavarnir ríkisins og efla alþjóðlegt samstarf hennar. Síðdegis var athöfn í Skerjagarði, nýjum einstaklingsgarði Félagsstofnunar stúdenta, þegar fyrri hluti hans var formlega tekin í notkun, en 4. apríl 1997 tók ég fyrstu skóflustungu að honum með stórri vélgröfu og nú var ég hífður upp á þak og setti síðustu lofttúðuna á þann hluta hússins, sem er tilbúinn.