28.8.2007 21:58

Þriðjudagur, 28. 08. 07.

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun kynnti ég tillögu til handhafa forsetavalds, Geirs H. Haarde, Gunnlaugs Claessens og Sturlu Böðvarssonar um, að þeir skipuðu dr. Pál Hreinsson, forseta lagadeildar Háskóla Íslands, hæstaréttardómara. Þegar undirskrift Sturlu Böðvarssonar, forseta alþingis, hafði verið fengin um kl. 16.30, en hann fundaði með forsætisnefnd þingsins í Stykkishólmi, var send út tilkynning um skipunina.

Lögum samkvæmt ber að kynna allar tillögur til forseta Íslands eða handhafa forsetavalds í fjarveru hans í ríkisstjórn. Hér er um formsatriði að ræða og fara ekki fram efnislegar umræður um efni tillögunnar, enda er hún flutt á ábyrgð viðkomandi ráðherra og verður ekki breytt af öðrum en honum. Ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald, þar sem sest er á rökstóla um tillögur af þessu tagi.

Helgi Jóhannesson, formaður Lögmannafélags Íslands, sagði í útvarpsviðtali í morgun, að hann teldi það utan við verksvið hæstaréttar að hafa afskipti af skipan manna í réttinn með því að veita ráðherra umsögn - þar væri um stjórnsýsluathöfn að ræða. Taldi hann skynsamlegra að þriggja manna nefnd skipuð fulltrúum dómstólaráðs, lögmanna og alþingis veitti ráðherra umsögn um skipan í embætti hæstaréttardómara.

Ég hef sagt á alþingi, að huga mætti að annarri aðferð við að komast að niðurstöðu um val á dómurum í hæstarétt, en þó yrði lokaákvörðun alltaf að vera í höndum ráðherra, sem bæri hina pólitísku ábyrgð.