8.8.2007 21:01

Miðvikudagur, 08. 08. 07.

Mér er ekki kunnugt um, hver ritstýrir visir.is en ég gef ekki mikið fyrir ályktunarhæfileika hans, úr því að hann dregur þá ályktun af dagbókarfærslu minni í gær, að ég vilji setja einhverja reglu um að fólk yngra en 23 ára megi ekki vera í miðborg Reykjavíkur um helgar.

Hugleiðing mín snerist um nauðsyn samstarfs til að sporna gegn hömluleysi. Með samstarfi allra, sem hlut eiga að máli, næðist bestur árangur í viðleitni til að tryggja öryggi borgaranna og draga úr sóðaskap.

Að túlka orð mín á þann veg, sem gert er á visir.is og gera mér upp skoðun í fyrirsögn er aðeins til marks um ruddaskap og tillitsleysi á ritvellinum. Móðursýkin í skrifum þeirra, sem blogga svo í tilefni af ruglinu í ritstjóra visir.is, er sérstakt rannsóknarefni.

Í tilefni af þessu sendi ég eftirfarandi tölvubréf til frettir@visir.is:

„Ég rakst á það á visir.is að mér var gerð upp skoðun um ferðir ungs fólks í miðborg Reykjavíkur og hef ritað um það í dagbókarfærslu í dag. Ég skora á ykkur að birta dagbókarfærsluna orðrétta um leið og þið leiðréttið fyrirsögn ykkar og biðjist afsökunar á að hafa gert mér upp skoðun.“

Visir.is lætur ekki við það sitja að rangfæra orð mín heldur tekur til við að bera rangfærsluna undir veitingamenn eins og þessi frétt sýnir. Þar er rætt við Ívar Agnarsson, rekstrarstjóra á Sólon, sem liggur ekki á skoðun sinni. Í fréttinni segir:

„Á Sólon er 22 ára aldurstakmark en Ívar segir að flestir gesta staðarins séu rétt yfir þeim aldri. „Hvernig ætlar maðurinn að gera þetta? Ætlar hann að girða 101 af um helgar? Þetta er bara ekki framkvæmanlegt og í raun ótrúlegt að honum skuli detta þetta í hug,“ segir Ívar í samtali við Vísi.“