17.8.2007 11:07

Föstudagur, 17. 08. 07

Í Listasafni Árnessýslu í Hveragerði er skemmtileg málverkasýning með fjallamyndir Ásgríms Jónssonar að uppistöðu en samtímalistamenn koma einnig við sögu. Listastafnið er í húsi, sem Einar Hákonarson reisti af miklum stórhug til listsýninga.

Við litum inn á sýninguna á leið í Skálholt, þar sem við hlýddum kl. 19.00 á frumflutning á Íslandi á óratoríunni Ísrael úr Egyptalandi eftir Händel. Hörður Áskelsson stjórnaði Schola Cantorum og alþjóðlegri barokkhljómsveit ásamt einsöngvurum við mikla hrifningu áheyrenda.

Vladimír Pútin Rússlandsforseti tilkynnti í dag, að hann hefði gefið fyrirmæli til rússneska hersins um að hefja að nýju langflug Blackjack og Bear sprenguvéla, sem geta borið kjarnokruvopn, yfir úthöfin. Sagt var frá því, að þrír hópar flugvéla hefðu verið sendir af stað út á Kyrrahaf, Norður-Atlantshaf og yfir Norðurpólinn.

Olíuauður Rússa gerir þeim kleift að setja hervél sína af stað á nýjan leik til að gera sig meira gildandi á alþjóðavettvangi. Þótt greinilega hafi verið þurrkað rykið af gömlum æfingaskrám spengjuvélanna, verður að vænta þess, að ekki vaki fyrir Rússum að draga til dæmis úr öryggi farþegaflugvéla á íslenska flugstjórnarsvæðinu.

Sagt var frá því, að Norðmenn og Bretar hefðu sent orrustuvélar til móts við rússnesku sprengjuvélarnar í nágrenni Íslands.