11.8.2007 23:54

Laugardagur, 11. 08. 07.

Vorum klukkan 17.00 í Hallgrímskirkju, þar sem ég hélt setningarávarp kirkjulistahátíðar. Síðan fluttu Mótettukórinn, alþjóðleg barokkhljómsveit og einsöngvarar H-moll messu Bachs undir stjórn Harðar Áskelssonar við mikla hrifningu áheyrenda.

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins fetar Sigmund í fótspor ruglukollanna á visir.is og gefur ranglega til kynna, að ég vilji takmarka för ungs fólks um miðborg Reykjavíkur. Sigmund er sjálfum sér samkvæmur í rugli sínu. Hann hefur um margra ára skeið látið eins og ég sé að stofna eða hafi stofnað íslenskan her. Gangist menn upp í að hafa rangt fyrir sér, eiga þeir það við sjálfan sig en ekki aðra. Sé einhverjum skemmt, er tilganginum náð.