24.8.2007 21:09

Föstudagur, 24. 08. 07.

Nú hefur verið skýrt frá því að Hugo Chávez, einræðisherra í Venezúela, hafi ákveðið að færa klukkuna fram um hálftíma. Hann skýrði frá þessu í vikulegu sunnudagsspjalli sínu í sjónvarpi, en þar flytur hann ræður í allt að sex klukkustundir í lotu að fordæmi Fidels Castrós.

Chávez tengdi klukkubreytinguna við ákvörðun sína um sex klukkustunda vinnudag á næsta ári. Hann telur, að stytting vinnudagsins auki framleiðni og breytingin á klukkunni falli betur að líkamsklukku íbúa Venezúela, enda ráðist heilastarfsemin af sólarljósinu.

Líklegt er, að Chavés telji þessar ráðstafanir sínar auka stuðning í Venezúela við þau áform sín að sitja á forsetastóli um ótakmarkaðan tíma og hrinda í framkvæmd „sósíalisma 21. aldarinnar“ eins og hann kallar stefnu sína.