25.8.2007 10:55

Laugardagur, 25. 08. 07.

Yfirlýsing Einars K. Guðfinnssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um að ekki verði veitt leyfi til hvalveiða, ef ekki tekst að finna markað fyrir hvalkjötið, hefur vakið mikla athygli víða um heim. Hér má lesa frásögn The Daily Telegraph.

Í sumarbyrjun bárust fréttir um að Paul Watson, leiðtogi Sea Shepherd-samtakanna, væri á leið til Íslandsmiða í sumar á skipi samtakanna Farley Mowat til að hindra hvalveiðar. Nú er skipið hins vegar á Bermuda-eyjum samkvæmt frétt samtakanna, þar sem sagt er, að nú sé verið að búa það undir átök á Norður-Atlantshafi á næsta ári.

Í frétt frá Sea Shepherd-samtökunum í gær, eftir að yfirlýsing sjávarútvegsráðherra lá fyrir, segir, að þau muni ekki senda Farley Mowat á Íslandsmið á næsta ári en þó vera á nálægum slóðum til að halda Íslendingum við efnið.

Frétt Sea Shepherd einkennist af þeim hálfsannleika og ósannindum, sem setja svip sinn á málflutning Pauls Watsons. Hann segir um söluna á hvalkjötinu: „In other words, Icelanders will not eat the meat because it's poison, but they have no qualms about selling poisoned meat to the Japanese.“

Paul Watson segist í frétt Sea Shepherd-samtakanna hafa komið til Íslands 1988 til að láta ákæra sig fyrir skemmdarverk á hvalbátum 1986 í Reykjavíkurhöfn.

Hér er frásögn Morgunblaðsins frá 21. janúar 1988 af því hvernig Watson boðaði komu sína til landsins. Hann var handtekinn um leið og hann steig á land á Keflavíkurflugvelli og fluttur til yfirheyrslu hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins.

Hér er frásögn Morgunblaðsins frá 23. janúar 1988, þegar lýst er brottvísun Watsons. Jón Sigurðsson, síðar bankastjóri Norræna fjárfestingabankans, var dómsmálaráðherra á þessum tíma.

Hér má sjá, hvernig skrifað er um Nicolas Sarkozy í The New Yorker.