13.8.2007 21:36

Mánudagur, 13. 08. 07.

Grein Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, í Morgunblaðinu í dag um nauðsyn samhentra og ábyrgra aðgerða til að uppræta næturómenninguna í miðborg Reykjavíkur um helgar, hefur hlotið góðar undirtektir.

Í Kastljósi kvöldsins ræddu þau Svandís Svavarsdóttir, oddviti vinstri/grænna í borgarstjórn, og Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, grein Stefáns og töldu sjálfsagt, að borgarstjórn Reykjavíkur gengi til samstarfs í því skyni að finna bót á næturlífinu í borginni. Gísli Marteinn taldi alltof mörgum veitinga- og skemmtistöðum hefði verið komið fyrir á litlum bletti í miðborginni. Þá vildu þau ræða reynsluna af lengdum afgreiðslutíma veitingastaða og taka mið af henni við framtíðarákvarðanir.

Eftir setu mína í borgarstjórn er ég þeirrar skoðunar, að alltof margir aðilar komi að málefnum miðborgarinnar fyrir hönd borgarstjórnar og borgaryfirvalda. Í raun sé erfitt að henda reiður á því, hver sé hinn rétti viðmælandi, vilji menn stuðla að umbótum í miðborginni. Miðað við hina pólitísku samstöðu, sem birtist í Kastljósinu, er þess að vænta, að fulltrúi borgarstjórnar í viðræðum við lögreglustjóra hafi skýrt og ótvírætt umboð.

Veitingamenn hafa mikinn hag af því, að öfugþróun og illu umtali um næturlíf miðborgarinnar linni. Án ábyrgra aðgerða er hætta á því, að svo verði þrengt að skemmtanahaldi og veitingarekstri í hjarta borgarinnar, að þessari starfsemi verði sjálfhætt.