3.8.2007 19:45

Föstudagur, 03. 08. 07.

Páll Magnússon útvarpsstjóri segir í Fréttablaðinu í dag, að hann missi ekki svefn vegna spurningar minnar hér á síðunni sl. miðvikudag um, hvort ríkið ætti ekki að selja aðra hluta RÚV en gömlu gufuna, það er rás 1. Það vakti alls ekki fyrir mér að raska svefnró útvarpsstjóra og er gott að vita, að spurning mín hafði ekki svo alvarlegar afleiðingar. Viðbrögð útvarpsstjóra eru annars í ætt við tóninn frá Kastljósi, leyfi sér einhver að finna að efnistökum þess, og koma þau því ekki á óvart.

Stjórnendur almannaútvarps hvarvetna í Evrópu þurfa að halda uppi vörnum fyrir stofnanir sínar vegna nýrrar samkeppni og minnkandi skilnings  stjórnmálamanna og almennings á nauðsyn þess að viðhalda hinu ríkisrekna kerfi. Hvergi hefur almannaútvarp notið meiri virðingar en í Bretlandi, BBC, en þar hafa undirstöður þess nötrað oftar en einu sinni undanfarin ár vegna óvandaðrar framgöngu starfsmanna þess.

Ég vek athygli lesenda minna á því að á www.andriki.is er boðin ókeypis áskrift að Þjóðmálum í tilefni af tveggja ára afmæli bóksölu Andríkis. Andríkismenn segja:

„Andríki hefur nú ákveðið að halda upp á þessa tveggja ára sögu og leyfa viðskiptavinunum að njóta þess með sér. Næstu tvær vikur býðst öllum þeim sem panta bækur úr Bóksölu Andríkis eins árs ókeypis kynningaráskrift að hinu ómissandi tímariti, Þjóðmálum. Eins og áður hefur verið minnst á þá eru Þjóðmál ómissandi fyrir alla áhugamenn um þjóðmál og menningu en í hverju hefti eru forvitnilegar og vandaðar greinar um ótal efni sem hinir útbreiddari fjölmiðlar hafa ekki sans fyrir.“