31.8.2007 22:39

Föstudagur, 31. 08. 07.

Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, ritar grein í Morgunblaðið í dag og skammar Gabriel Stein, sérfræðing og ráðgjafa frá London, fyrir skoðanir hans á ESB-aðild Íslands. Stein taldi hana fráleita á ráðstefnu um galdmiðla og alþjóðavæðingu, sem RSE hélt á dögunum. Andrés segir:

„Gabriel Stein sagði að Ísland yrði dregið fyrir Evrópudómstólinn vegna útilokunar annarra landa frá fiskimiðunum hér við land og dómstóllinn myndi að sjálfsögðu dæma Íslendingum í óhag. Þar með myndu íslensku fiskimiðin fyllast af spænskum og portúgölskum togurum. Þetta er gömul bábilja sem andstæðingar Evrópusambandsaðildar hafa lengi haldið á lofti þar til að þetta var endanlega hrakið í skýrslu Evrópunefndar Alþingis sem kom út í vor. Þar kemur skýrt fram að reglan um hinn svokallaða ,,hlutfallslega stöðugleika" er einn af hornsteinum sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Samkvæmt henni fengju aðeins íslensk fiskveiðiskip kvóta hér við land og þetta hefur verið staðfest bæði af fulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og fulltrúum Evrópudómstólsins. “

Það er rangt hjá Andrési, að nokkuð af því, sem Gabriel Stein sagði um þetta efni sé hrakið í skýrslu Evrópunefndar. Þar er alls ekkert fjallað um þá skoðun Steins, að litlu skipti, þótt Íslendingar teldu sig hafa fengið einhver sérkjör í fiskveiðum í aðildarsamningi við ESB. Annarra þjóða menn t.d. Spánverjar eða Portúgalir myndu einfaldlega kæra þessa niðurstöðu til Evrópudómstólsins, sem myndi á grundvelli jafnræðisreglu fella sérkjörin úr gildi.

Stein byggir skoðun sína á dómum, sem fallið hafa um slík sérkjör og afnám þeirra. Evrópunefndin ræddi það mál ekki og þess vegna er óvarlegt fyrir Andrés að skjóta sér á bakvið skýrslu hennar í þessu efni. Auk þess snýst túlkun Andrésar á reglunni um „hlutfallslegan stöðugleika“ aðeins um hluta þess, sem lagt yrði á íslenskan sjávarútveg með ESB-aðild.

Evrópuumræður í þeim tón, sem einkennir skrif Andrésar Péturssonar, skila litlum árangri, þær minna meira á kveinstafi en rökræður.