23.8.2007 11:13

Fimmtudagur, 23. 08. 07

Klukkan 14.30 var ég í lögreglustöðinni í Reykjavík og ritaði þar undir samkomulag með þeim Þórarni Tyrfingssyni, forstöðumanni SÁÁ, og Jóni H. B. Snorrasyni, aðstoðarlögreglustjóra, um móttöku SÁÁ á áfengis- og fíkniefnaneytendum.

Klukkan 16.10 var ég á hótel Nordica og hlýddi þar á erindi á ráðstefnu RSE um alþjóðavæðingu og gjaldmiðla. Þar kom fram á afdráttarlausan hátt, að unnt er að skipta á íslensku krónunni og evru án þess að ganga í Evrópusambandið. Gengur þetta þvert á upplýsingar, sem okkur voru gefnar í Evrópunefndinni og endurpeglast í skýrslu okkar. 

Gabriel Stein, sem starfar við hagfræðirannsóknir í London, hvatti eindregið til þess á ráðstefnunni að Íslendingar stæðu utan ESB. Hann er raunar síður en svo sannfærður um, að skynsamlegt sé fyrir okkur að falla frá íslensku krónunni. Telur að rannsaka þurfi og ræða málið meira en gert hefur verið, áður en ákvörðun af því tagi verður tekin.