12.8.2007 21:56

Sunnudagur, 12. 08. 07.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður vinstri grænna, var að býsnast yfir því í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, að Þjórsárver skyldu ekki hafa verið tilnefnd af ríkisstjórninni á yfirlitslista um framtíðarstaði á heimsminjaskrá UNESCO. Taldi hún það til marks um, að stjórnmálamenn ættu ekki heima í heimsminjanefnd Íslands en menntamálaráðherra skipaði okkur Össur Skarphéðinsson og Sæunni Stefánsdóttur, fyrrverandi þingmann Framsóknarflokksins, í nefndina 12. maí sl.

Listinn, sem ríkisstjórninni samþykkti að tillögu menntamálaráðherra og umhverfisráðherra föstudaginn 10. ágúst, var ekki saminn af okkur þremur í heimsminjanefndinni, sem kom saman til fyrsta fundar síns 31. júlí. Listinn var saminn af þeim, sem Álfheiður telur líklega fagfólk á þessu sviði, og hafði hann verið samþykktur af fyrri heimsminjanefnd, þegar hann var lagður fyrir okkur og var okkur ljúft að leggja blessun yfir hann.

Yfirlitslistar um framtíðarstaði eru samdir á nokkurra ára fresti og taka mið af heildarstefnu UNESCO í heimsminjamálum og tekur nýi listinn mið af því. Meginverkefni heimsminjanefndar er að halda utan um sérfræðilega vinnu við framkvæmd tillagna, sem birtast á yfirlitslistanum. Álfheiður taldi fráleitt, að dómsmálaráðherra og iðnaðarráðherra væru færir um að sinna þessu verkefni. Við Össur komum hins vegar báðir að því að tryggja Þingvöllum sæti á heimsminjaskránni og kynntumst þá þeim meginsjónarmiðum, sem ber að hafa í huga við úrvinnslu slíkra verkefna - þar kemur stjórnmálareynsla að góðu gagni.