18.8.2007 19:25

Laugardagur, 18. 07. 08.

Óneitanlega er dálítið skringilegt, að hlusta á Stefán Pálsson, málsvara hernaðarandstæðinga, kvarta undan því, að Rússar séu teknir til við að haga sér eins og á tímum kalda stríðsins með því að senda sprengjuþotur út á Kyrrahaf og Norður-Atlantshaf.

Ef einhver spilar hér sömu plötu og á tíma kalda stríðsins er það einmitt Stefán sjálfur, sem vildi helst, að löggann lumbraði á sér í tilefni menningarnætur - það yrði hans bónus í dag, af því að löggann hefði gert það í kalda stríðinu!

Þegar rætt er um ákvarðanir á borð við þá, að Rússar hafi ákveðið að hefja úthafsflug sprengjuvéla á ný, er fráleitt að líta tvo áratugi til baka og meta flugið með vísan til þess tíma. Ákvörðunina á að meta í ljósi framvindu alþjóðastjórnmála og hermála líðandi stundar. Hún bendir til þess, að Rússar ætli í krafti olíuauðs að gera sig meira gildandi á alþjóðavettvangi. Spyrja á: Hver er tilgangurinn með því?