7.8.2007 20:46

Þriðjudagur, 07. 08. 07.

Þegar rætt er um atburði verslunarmannahelgarinnar og því velt fyrir sér, hvers vegna allt fór fram á frekar skikkanlegan hátt, má ekki gleyma nánu samstarfi mótshaldara og lögreglu. Viðbúnaður lögreglu var í samræmi við það, sem menn væntu á hverjum stað og hún vann náið með þeim, sem báru ábyrgð á mannfagnaði víða um land. Ákvarðanir bæjaryfirvalda á Akureyri drógu einnig mjög úr líkum á vandræðum þar.

Besta leiðin til að auka næturöryggi í miðborg Reykjavíkur er að kalla alla til ábyrgðar. Vegna skynsamlegra varrúðarráðstafana á Akureyri sögðust ýmsir hafa misst spón úr aski sínum. Viðleitni til að sporna við hömlulausum veitingarekstri í miðborginni kann að koma við buddu einhvers. Þar eru þó minni hagsmunir í húfi en öryggi borgaranna, sem seint verður metið til fjár.

Nýta á reynsluna af samstarfi og ákvörðunum vegna hátíða um verslunarmannahelgina, þegar hugað er að leiðum til að draga úr óreglu og ólátum í miðborg Reykjavíkur.