30.8.2007 22:24

Fimmtudagur, 30. 08. 07.

Í hádeginu hitti ég sendinefnd frá Færeyjum undir forystu færeyska dómsmálaráðherrans með þátttöku fulltrúa allra þingflokka í Færeyjum og embættismanna. Hópurinn kom hingað til að fræðast um útlendingalöggjöfina og hvernig staðið er að því að veita útlendingum atvinnuleyfi.

Mér þótti broslegt að sjá Dag B. Eggertsson, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, telja til stórtíðinda, að hugmyndir væru um að breyta Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í opinbert hlutafélag. Á sínum tíma barðist samfylkingarfólk í borgarstjórn fyrir þessari skipan en komst ekki  framhjá vinstri/grænum, sem haga sér eins og naut fyrir framan rauða dulu, þegar þeir heyra minnst á hlutafélag um opinberan rekstur. Ætlar Dagur virkilega að beita sér gegn þessari breytingu á OR? Eða er hann bara svona æstur, af því að hann telur ekki rétt staðið að dreifingu fundargagna til sín?