22.8.2005 15:46

Mánudagur, 22. 08. 05.

Var klukkan 09.45 á Bessastöðum, þar sem tekið var á móti Vaclav Klaus, forseta Tékklands, og konu hans. Í stuttu samtali okkar gladdist hann yfir því, að ég rifjaði upp, að daginn áður, 21. ágúst voru 37 ár liðin, frá því að sovéski herinn var sendur inn í Tékkóslóvakíu til að kæfa vorið í Prag, eins og frelsisbylgjan um landið var nefnd. Hann sagðist einmitt hafa tekið þátt í minningarathöfn um þennan atburð, áður en hann hélt til Íslands.

Síðdegis hlustaði ég á erindi sem þeir fluttu á Mont Pelerin ráðstefnunni í hótel Nordica: Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Bent Jensen, prófessor frá Kaupmannahöfn, og Vaclav Klaus um það, hvernig menntamenn létu glepjast af kommúnismanum og hvers vegna auk þess sem Klaus varaði við því, hvernig fólk með sama hugsunarhátt er að nota ýmiss konar málefni og samtök til að koma ár sinni fyrir borð og takmarka frelsi annarra.