28.8.2005 15:45

Sunnudagur, 28. 08. 05.

Var austur á Þingvöllum klukkan 10.00 og flutti ávarp yfir norrænum séfræðingum um heimsminjalista UNESCO í fræðslumiðstöðinni á Hakinu. Gekk síðan með þeim að Valhöll en á leiðinni talaði Skúli Skúlason rektor um náttúru Þingvalla og Þingvallavatns, Guðmundur Hálfdanarson prófessor um sögu og þjóðernislegt gildi Þingvalla og Adólf Friðriksson fornleifafræðingur um fornleifarannsóknir.

Það var norðangjóla og frekar kalt og við Rut fundum engin ber, þegar við leituðum þeirra í nágrenni Valhallar.

Í Morgunblaðinu í dag andmælir Bjarni Harðarson, ritstjóri á Suðurlandi, fyrirvaralausum brottrekstri fréttamanns hljóðvarps ríkisins á Suðurlandi fyrir gálaus og vanhugsuð ummæli hans um Baugsmenn á vefsíðu sinni. Þau hafa nú verið þurrkuð af síðunni, en hinir siðavöndu blaðamenn DV hafa birt þau á prenti. Bjarni veltir fyrir sér, hvort brottreksturinn sé til marks um nýjar reglur í þessu efni hjá RÚV, ef litið er til orða, sem fréttamenn létu til dæmis falla í harði fréttastjóradeilu fyrr á árinu. Honum finnst einnig skrýtið, að fréttamaðurinn skuli ekki hafa fengið tækifæri til andmæla og bera hönd fyrir höfuð sér, áður en hann var rekinn. Ég sagði frá gálausum skrifum á vefsíður í pistli hér á síðunni 6. mars 2004, meðal annars hjá þáttargerðarmanni hljóðvarpsins. Ég minnist þess ekki, að sú færsla hans hafi dregið dilk á eftir sér.

Fór klukkan 17.00 á lokatónleika kirkjulistahátíðar Hallgrímskirkju og hlustaði á Matteusarpassíu eftir Trond Kverno, sem dómkórinn í Ósló og einsögvarar fluttu en Terje Kvam stjórnaði.