11.8.2005 22:44

Fimmtudagur, 11. 08. 05.

Hélt klukkan 08.00 fljúgandi ásamt embættismönnum úr dóms- og kikrjumálaráðuneytinu austur á Egilsstaði. Þar tókum við bíl á leigu og ókum að Kárahnjúkum, þar sem við hittum sýslumann og yfirlögregluþjón og síðan stjórnendur Impregilio og Landsvirkjunar á svæðinu. Ræddum við á um öryggismál og dvalarleyfi útlendinga og skoðuðum síðan stíflugerðina. Mannvirkin eru einstök og með ólíkindum að sjá umsvifin á svæðinu og fá lýsingu á þeim.

Ókum síðan til þeirra, sem vinna að því að koma túrbínunum fyrir inni í fjallinu skammt frá Valþjófsstað. Ókum um einn km inn í fjallið og sáum gímaldið fyrir sex túrbínur, sem eiga að verða í stöðvarhúsinu, en það er um 40 metra hátt eða eins og 10 hæða blokk. Við sáum ekki rúmlega 400 metra fallgöngin, sem starfsmenn Slippstöðvarinnar á Akureyri eru að klæða með stálhólki. Þetta hlýtur að vera ótrúlega erfitt og vandasamt verk, en eitthvað hefur það tafist vegna skorts á mannafla, en Slippstöðin er á höttunum eftir málmiðnaðarmönnum í Póllandi og Þýskalandi.

Ókum niður á Reyðarfjörð og hittum þar sýslumann og lögreglumenn. Eftir fund með þeim héldum við á svæðið, þar sem starfsmenn Bechtel eru að reisa álverið fyrir Alcoa. Ræddum við yfirmenn framkvæmdanna um öryggismál og dvalarleyfi. Bechtel leggur áherslu á að ráða Pólverja til starfa hjá sér, ef engir Íslendingar eru tiltækir. Impregilio á Kárahnjúkum er með rúmlega 400 Kínverja, Pakistani, Portúgali og fleiri þjóða menn eða alls frá meira en 40 löndum. Byggingarframkvæmdirnar við álverið eru á áætlun og eru einnig svo stórar í sniðum, að maður á erfitt að skynja eða skilja umfangið.

Á leiðinni á flugvöllinn litum við inn á lögreglustöðina á Egilsstöðum og ræddum við lögreglumenn á vakt.

Mér er óskiljanlegt, hvers vegna Egill Helgason og ýmsir aðrir, sem hafa að atvinnu að segja álit sitt á atburðum líðandi stundar, skuli mikla fyrir sér, að lögregla fylgist með þeim, sem hafa að markmiði að trufla framkvæmdir við Kárahnjúka og á Reyðarfirði. Sem betur fer eiga slík viðhorf ekki hljómgrunn meðal almennings.

Það er verkefni lögreglunnar að halda uppi lögum og reglu og bregðast við í samræmi við atvik hverju sinni. Ef hún fylgist ekki með þeim, sem kjósa skemmdarverk í stað umræðna, gera þeir sér lítið fyrir í skjóli myrkurs og mála slagorð sín á Alþingishúsið eða stöpulinn á styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli.