29.8.2005 18:46

Mánudagur, 29. 08. 05.

Sjálfstæðisflokkurinn fær 53,5% og 9 borgarfulltrúa í  Reykjavík í skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag, þegar spurt er um afstöðu vegna komandi borgarstjórnarkosnininga. Samfylkingin fær 29,7% og 5, vinstri/grænir 8,8% og 1 borgarfulltrúa, Framsóknarflokkurinn fær 4,8% og engan og frjálslyndir 2,2% og engan.

Þetta er ánægjuleg vísbending um hug borgarbúa um þessar mundir. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri og samfylkingarkona sagði þetta fína niðurstöðu fyrir Samfylkinguna! Umræðurnar hefðu verið um Sjálfstæðisflokkinn og framboð hans. Skyldi hún ekki hafa tekið eftir umræðunum um upplausn R-listans? Alfreð Þorsteinsson framsóknarmaður sagðist oft hafa séð það svartara en þetta - hvenær í pólitík? Ólafur F. Magnússon sagðist ætla að haga seglum eftir vindi og starfa annað hvort til hægri eða vinstri - dæmigerður tækifærissinni, þótt hann hrósi sér jafnan af stefnufestu, þegar hann talar í borgarstjórn.

Ég var að hlusta á frétt á Stöð 2 þar sem rætt var um 7. gr. relugerðar, sem ekki hefur tekið gildi, og fjallar um útfarir, bálfarir og fleira. Ég var undrandi á fréttinni og að fréttamaðurinn vissi ekki, að verið er að huga að breytingu á þessari grein, en reglugerðin var send um 700 aðilum til umsagnar fyrir undirritun hennar og útgáfu. Enginn gerði þó athugasemd við þetta ákvæði hennar fyrr en eftir útgáfu reglugerðarinnar.