Mánudagur, 08. 01. 07.
Skömmu fyrir jól var Dominique de Villepin, forsætisráðherra Frakka, í 17 klukkustunda yfirheyrslu hjá rannsóknardómurunum, sem eru að leitast við að upplýsa Clearstream málið, en það snýst meðal annars um það, hver hafi ranglega sett nafn Nicolas Sarkozys, innanríkisráðherra Frakka og forsetaframbjóðanda hægri manna, á lista yfir þá Frakka, sem hefðu fengið ólögmætar fjárgreiðslur vegna sölu á freigátum til Tævan fyrir meira en áratug.
Rannsóknardómararnir hafa ekki skilað skýrslu sinni. Á hinn bóginn var de Villepin í hálftíma sjónvarpssamtali á Canal + um helgina, án þess að segja eitt orð til stuðnings framboði Sarkozys. Þögn hans er þó ekki túlkuð á þann veg, að hann sé sjálfur að undirbúa framboð, heldur á þann veg, að enn sannist, hve litlir kærleikar séu á milli ráðherranna. Raunar undrast margir, að Sarkozy skuli enn sitja í ríkisstjórninni og velta fyrir sér, hve lengi honum verði enn sætt þar vegna forsetaframboðsins.
David Bowie er 60 ára í dag. Dagsins er víða minnst og ég geri það með því að endurbirta úr færslu hér á síðunni frá 23. júní 1996 en þar segir frá tónleikum afmælisbarnsins hér á landi 20. júní 1996:
„Um kvöldið fórum við á tónleika Davids Bowie í Laugardalshöllinni. Var ekki annað unnt en dást að frammistöðu goðsins. Hann var tvo klukkutíma á sviðinu, þar sem allt gekk eins og vel smurð vél. Stóð hann við loforð sitt við komuna til landsins, að efna hér til góðra tónleika í tvær stundir. Fyrir okkur óvana áheyrendur á slíkum tónleikum var hávaðinn næstum óbærilegur á stundum og bassinn skall á manni eins og bylgja. Þegar við hittum Bowie og menn hans eftir tónleikana, voru þeir undrandi á því, að við hefðum ekki sett tappa í eyrun til að draga úr hávaðanum! Í stuttu samtali var Bowie eins og margir aðrir heimsfrægir menn hógvær og velviljaður. Virtist hann hafa fullan hug á að koma hingað aftur til að kynnast landinu betur í fylgd með eiginkonu sinni.
Þegar við kvöddum hann var klukkan farin að halla í tvö eftir miðnætti og morguninn eftir var ferðinni heitið snemma morguns til Frankfurt, þar sem síðdegis átti að sinna sjónvarpsviðtölum og búa sig undir tónleika á laugardeginum. Hefur Bowie verið á sífelldu ferðalagi með tveimur stuttum hléum síðan í ágúst 1995 og haldið að meðaltali þrjá stórtónleika í viku hverri í nýju landi eða borg í hvert sinn.“