29.1.2007 21:48

Mánudagur, 29. 01. 07.

Var klukkan 15. 30 í Keflavík og skrifaði við hátíðlega athöfn í lögreglustöðinni undir skipurit hins nýja embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum. Í ræðu lét ég þess getið, að þetta væri ekki aðeins söguleg stund vegna sameiningar lögregluliða sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli og sýslumannsins í Keflavík heldur einnig vegna þess, að nú færðist öll lögreglustarfsemi hins sameinaða embættis undir forræði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Þegar við vorum að leggja lokahönd á frumvarpið að lögunum um nýskipan lögreglumála fyrir einu ári, var sett í þau ákvæði um, að hið nýja sameinaða lögregluembætti ætti einnig að sinna verkefnum á vegum utanríkisráðuneytisins á varnarsvæðunum. Þá sáu menn ekki fyrir, að um níu mánuðum síðar myndi varnarliðið hverfa úr landi og þar með einnig varnarsvæðin. Þau heyra nú sögunni til og einnig valdheimildir utanríkisráðuneytisins á þeim. Allt lögreglustarf í landinu, hverju nafni sem nefnist, heyrir nú undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið.

Ég er þess fullviss, að undir forystu Jóhanns R. Benediktssonar lögreglustjóra tekst að sameina liðsheildina til góðra verka, en undir hans stjórn starfa um 220 manns, þar af um 90 lögregluþjónar og um 50 tollverðir, fjöldi öryggisgæslumanna í flugstöð Leifs Eiríkssonar, lögfræðingar og annað sérhæft fólk. Verkefni liðsins er annars vegar að tryggja, að öll gæsla á Keflavíkurflugvelli standist ströngustu kröfur og öryggi íbúanna á Suðurnesjum sé vel tryggt.

Frjálslyndi flokkurinn er klofinn, eftir að Margrét Sverrisdóttir lýsti yfir brotthvarfi sínu úr flokknum nú í kvöld. Eftir stendur valdahópur í kringum þá Guðjón Arnar Kristjánsson formann og Magnús Þór Hafsteinsson varaformann auk félaga úr Nýju afli undir forystu Jóns Magnússonar hrl. en með þeim hafa neikvæð viðhorf í garð útlendinga tekið að setja svip sinn á stefnu flokksins. Útvarp Saga er málgagn Nýs afls og þess sem eftir stendur af Frjálslynda flokknum, enda kalla menn stöðina nú níðstöng nútímans.

Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sem að vísu er á förum til þróunarstarfa í Afríku, sagði í Kastljósi í kvöld, að kaffibandalagið svonefnda væri fjötur fyrir Samfylkinguna, hún ætti enga samleið með Frjálslynda flokknum. Stefán Jón er þarna á öndverðri skoðun við Össur Skarphéðinsson, þingflokksformann Samfylkingarinnar, sem veittist að Guðjóni Ólafi Jónssyni, þingmanni Framsóknarflokksins, á þingi í dag og líkti honum við hirðfífl í leikritum Shakespears, af því að Guðjón Ólafur sagði, að frjálslyndum væri ekki trúandi fyrir ríkiskassanum, úr því að þeir hefðu ekki ráðið við kjörkassa á eigin landsfundi, auk þess sem hann gagnrýndi Samfylkinguna fyrir daðrið við frjálsynda með þessa nýju stefnu þeirra í útlendingamálum.

Hvar skyldi það raunar geta gerst annars staðar í Evrópu, að jafnðarmannaflokkur, eins og Samfylkingin segist vera, sé í slagtogi með flokki eins og þeim, sem Frjálslyndi flokkurinn er nú orðinn, og hampi því sérstaklega, að ætlunin sé að mynda með honum ríkisstjórn að loknum kosningum? Í Danmörku? Í Noregi? Í Austurríki? Í Frakklandi?

Í sama mund og forystumenn Samfylkingarinnar berja sér á brjóst og segjast víst ætla í stjórn með frjálslyndum, hvað sem á dynur, berast þær fréttir frá Frakklandi, að forystumenn sósíalista þar hafi vísað George Freche, einum helsta og vinsælasta leiðtoga sósíalista í Suður-Frakklandi, úr flokki sínum fyrir að kvarta um, að landslið Frakka í knattspyrnu sé ekki þverskurður af frönsku þjóðinni. Hvað hefði nú verið sagt hefði Segolene Royal, forsetaframbjóðandi sósíalista, ljáð máls á stjórnarsamstarfi við sjálfan Le Pen? Aðalsmerki hans er að vera á móti útlendingum í Frakklandi.

Spyrjist til annarra landa, að jafnaðarmenn á Íslandi hafi ákveðið að ganga til stjórnarsamstarfs með Frjálslynda flokknum með hina nýju stefnu hans í útlendingamálum, verða þær raddir háværar í evrópskum og alþjóðasamtökum jafnaðarmanna, að ekki sé unnt að starfa með íslenska jafnaðarmannaflokknum, Samfylkingunni.