21.1.2007 16:18

Sunnudagur, 21. 01. 07.

Um þetta leyti fyrir fjórum árum ákvað Össur Skarphéðinsson, þáverandi formaður Samfylkingarinnar, að laða borgarstjórann í Reykjavík, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, til sigurstanglegs framboðs til alþingis með því að bjóða henni að verða forsætisráðherraefni flokksins. Skyldi stefnt að því, að flokkurinn fengi hið minnsta 35% ef ekki 40% í þingkosningum þá um vorið.

Í dag birtist könnun í Fréttablaðinu, sem sýnir, að Samfylkingin rétt mer 20% og er þó forsætisráðherraefnið Ingibjörg Sólrún orðin flokksformaður. Spurning er, hvort hún fari nú að ráði Össurar, sem var með flokkinn í 35%, þegar hætti sem formaður, og leiti að einhverjum til að verða forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni framundan - einhverjum, sem ekki hefur eyðilagt sig á því að tala ábyrgðarlaust um evruna eða talað sig dauðann í málþófi um, hvort ríkisútvarpið sé betra sem ríkisstofnun eða ríkishlutafélag (auðvitað getur það þvælst illilega fyrir einhverjum) - kannski ætti Ingibjörg Sólrún bara að gera Össur að forsætisráðherraefni, jafnvel þótt hann stýri þingflokknum, sem hún treystir ekki eins og svo margir aðrir?

Fór klukkan 20.00 á tónleika Kammersveitar Reykjavíkur í Listasafni Íslands við upphaf Myrkra músíkdaga.